Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Í þætti Morgunblaðsins, Dagmálum, er rætt við Guðmund Fertram Sigurjónsson, forstjóra og stofnanda Kerecis. Haft er eftir honum að fyrirtæki sem eru álíka stór og Kerecis og vel rekin hafi í nokkur ár verið metin á um einn milljarð dollara í kauphöll en það svarar til um 130 milljarða króna. Er þá horft til fyrirtækja á sama markaði og Kerecis og sem búa yfir sömu vaxtarmöguleikum og fyrirtækið.
Á síðustu fimm árum hafa tekjur fyrirtækisins að meðaltali aukist um 100% á ári.
Í síðustu viku voru hluthafar boðaðir á trúnaðarfund þar sem framtíðaráætlanir fyrirtækisins voru kynntar. Segist Morgunblaðið hafa heimildir fyrir að mat ráðgjafa og stjórnar fyrirtækisins sé að því verði fleytt á markað á grunni verðmats upp á 600-700 milljóna dollara en það svarar til 80-90 milljarða króna.