fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Eyjan

Björn Jón skrifar: Eyðilegging Hótel Sögu í boði nýrrar ríkisstjórnar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 5. desember 2021 17:34

Hótel Saga árið 2013. Mynd: Vilhelm

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

 

Sigmundur Sigurðsson, bóndi í Syðra-Langholti, var að koma norðan úr landi í júlí 1962 og hugðist gista hjá vinum sínum í Reykjavík en vinafólkið hafði þá farið á hestamannamót á Þingvöllum og húsið harðlæst. Fyrir tilviljun varð honum litið vestur á Mela þar sem risið var nýtt hótel bænda en greint hafði verið frá því í fréttum að til stæði að vígja hótelið þennan daginn. Hann afréð að leita þar gistingar. Í anddyrinu tók Þorvaldur Guðmundsson hótelstjóri á móti honum með kostum og kynjum — Sigmundur reyndist vera fyrsti gestur hótelsins sem fengið hafði nafnið Hótel Saga.

Sama dag innrituðu sig 25 svissneskir fjallgöngumenn á hótelið en við blasti að þeir hefðu ella enga gistingu fengið í bænum — enda verulegur skortur orðinn á gistirými. Hótelið bætti úr brýnni þörf. Og helstu erlendu fyrirmenni sem sóttu landið heim á næstu árum og áratugum gistu á Hótel Sögu. Haustið 1963 var Lyndon B. Johnson, varaforseti Bandaríkjanna, þar ásamt eiginkonu sinni og dóttur. Þetta var aðeins fáeinum vikum áður en  Kennedy var myrtur. Í Súlnasalnum var efnt til veislu til heiðurs Johnson sem búið var sæti milli Ásgeirs Ásgeirssonar forseta og Ólafs Thors forsætisráðherra. Þorvaldur Guðmundsson segir frá því í endurminningum sínum að varaforsetanum bandaríska hefði fallið vel við Ólaf. Svo mjög að hann hefði gleymt öllum mannasiðum og snúið bakhlutanum í forseta Íslands lungann úr kvöldinu!

Hægt væri að gefa út sögu Sögu í margra binda verki. Hótelsins sem markaði straumhvörf í sögu íslenskra ferðamála, og líka í sögu veitingahalds og skemmtanalífs. Grillið varð strax eitt eftirsóttasta veitingahús bæjarins og Súlnasalurinn helsti skemmtistaðurinn um árabil. Húsið sjálft var reist eftir teikningum eins kunnasta arkitekts síðustu aldar, Halldórs H. Jónssonar, og ber smekkvísi hans fagurt vitni.

Stærstur hluti byggingarinnar hefur verið endurnýjaður á síðustu árum af mikilli virðingu fyrir upprunanum en svo fór í haust að rekstrarfélag hótelsins var úrskurðað gjaldþrota. Í frumvarpi Bjarna Benediktssonar til fjárlaga er lagt til að kannaðir verði möguleikar á að ríkið kaupi Hótel Sögu fyrir Háskóla Íslands og er kostnaður við kaupin ein og sér talinn vera um fimm milljarðar króna.

Hverfum nú aftur um nokkur ár

Árið 1983 varpaði Jón Helgason, þá forseti sameinaðs Alþingis, fram þeirri hugmynd að Hótel Borg yrði keypt og breytt í skrifstofur og mötuneyti þingsins. Málið kom aftur til umræðu sex árum síðar þegar Hótel Borg var slegin kröfuhöfum á uppboði fyrir 50 milljónir króna. Þá var talið mögulegt að fá húsið keypt fyrir 200 til 250 milljónir króna sem Guðrún Helgadóttir, forseti sameinaðs Alþingis, sagði gott verð, en þetta myndi samsvara rúmum milljarði á verðlagi nú. Í fréttum árið 1989 var fullyrt að meirihluti þingmanna væri hlynntur kaupum á hótelinu og kannski var þetta í stíl við annað því tveimur áratugum fyrr hafði öðrum skemmtistað, Sjálfstæðishúsinu, handan Austurvallar, verið breytt í mötuneyti Pósts og síma. (Þegar ríkisstofnunin svo hvarf á braut lifnaði yfir húsinu á ný undir nafninu Nasa.)

Borgarráð Reykjavík brást ókvæða við hugmyndum um að Alþingi tæki til sín Borgina og benti á að það síðasta sem miðbærinn þyrfti væri að breyta vinsælu hóteli, kaffi- og veitingahúsi í skrifstofur fyrir hið opinbera. Mannlífið yrði til muna fábrotnara fyrir vikið. Ellert B. Schram, ritstjóri DV, tók undir þessi viðhorf í forystugrein og skrifaði:

„Hver borg, sem vill standa undir nafni, þarf á miðbæ að halda sem laðar að, býður upp á þjónustu og iðar af lífi og leik. Hótel Borg hefur um langan aldur verið vinsæll skemmtistaður, þar er nú aðlaðandi kaffihús og eina hótelið í hjarta borgarinnar. Það er eftirsjá ef þessi klassíski staður breytist í skrifstofur og mötuneyti fyrir eina stofnun og starfslið hennar.“

Þeir voru líka til þingmennirnir sem lýstu andstöðu sinni við fyrirætlanir um að breyta virðulegasta hóteli borgarinnar í skrifstofur hins opinbera. Birgir Ísleifur Gunnarsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi borgarstjóri, kvaðst í viðtali við DV í apríl 1989 andvígur hugmyndinni vegna þess hversu mikil blóðtaka brotthvarf Hótel Borgar yrði fyrir miðbæinn. „Miðbærinn þarf á lífi að halda sem þessi starfsemi skapar,“ sagði hann meðal annars.

Sem betur fer varð ekkert úr þessum fyrirætlunum og síðan þá hefur þetta sögufrægasta hótel bæjarins verið endurnýjað með myndarlegum hætti. Ég hygg að flestum finnist nú hugmyndin um Hótel Borg sem mötuneyti Alþingis í senn fáránleg og hlægileg.

Höldum enn vestur á Mela

Nú eru sambærilegar fyrirætlanir uppi um Hótel Sögu sem hið opinbera ætlar að leggja undir sig — bara kosta mun meiru til. Rætt er um að Kennaraháskólinn gamli flytjist á Hótel Sögu. Hvað ætli verði þá um hin miklu húsakynni á Rauðarárholti? Má ekki telja líklegt að þeim verði í staðinn breytt í hótel? Er ekki rétt að staldra aðeins við?

Hilmar Þór Björnsson arkitekt var gestur í þætti mínum Sögu & samfélagi á Hringbraut nú í haust og ræddi um það stórfellda niðurrif húsa sem á sér stað í okkar samtíma. Sömu stjórnmálamenn og tala fjálglega um umhverfisvernd standa fyrir því að heilu húsaraðirnar eru brotnar niður til að rýma fyrir „auknu byggingarmagni“ eins og það er kallað og skella skollaeyrum við ábendingum um þá mengun sem til dæmis fylgir framleiðslu steinsteypu eða allri þeirri óþarfa sóun sem niðurrif mannvirkja felur gjarnan í sér — einkum þegar um nýleg og vel byggð hús er að ræða.

Eyðilegging Hótels Sögu er af sama meiði. Öllum má ljóst vera að mörg ár mun taka að breyta þessari fornfrægu byggingu í skólahús og framtíðarkostnaðurinn er óútfylltur tékki — upphæðin miklu hærri en þeir fimm milljarðar sem rætt er um að húsið kosti (og er ærinn kostnaður út af fyrir sig!). Líklega yrði hagstæðara að reisa nýjar byggingar á háskólasvæðinu. Saga er auðvitað vel rekstrarhæf eining og nærtækara væri (án þess að það sé lagt til hér) að fjármunir skattborgara yrðu notaðir til að niðurgreiða skuldir hótelsins en að breyta því í skóla.

Stjórnmálamenn eru gjarnir á að fá vondar hugmyndir — hvort sem þeir heita Jón Helgason, Guðrún Helgadóttir eða Bjarni Benediktsson — og öllu verra þegar þær komast til framkvæmda. Vonandi endar tillagan um ríkið kaupi Hótel Sögu til skólahalds á öskuhaugum sögunnar líkt og fyrri tíðar ráðagerðir um að breyta Hótel Borg í mötuneyti þingsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu