Í samtali við hið íhaldssama pólska dagblað GPC sagði Kaczinsky að sum ríki séu „ekki hrifin af hugmyndinni um fjórða ríkið sem verði byggt á grunnstoðum ESB“. Þar vísar hann til þriðja ríkis nasista á árunum 1933 til 1945.
„Ef Pólverjar vilja vera með í svona nútíma undirgefni þá mun okkur hnigna á mismunandi hátt,“ sagði hann. Hann sagði einnig að dómstóll ESB, sem Pólverjum hefur verið stefnt fyrir, sé notaður sem „verkfæri“ fyrir alríkisstefnu.
Aðrir leiðtogar PiS hafa að undanförnu notað sömu lýsingar til að lýsa ESB-stefnu nýju þýsku ríkisstjórnarinnar sem er samsteypustjórn mið- og vinstriflokka.
Í stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar segir að lokamarkmiðið sé að mynda eitt evrópskt ríki og það fer fyrir brjóstið á PiS. Kaczynski hefur sagt að eitt evrópskt sambandsríki muni svipta Pólland sjálfsákvörðunarrétti.