Heimir Hannesson skrifar:
Hjálpræðisherinn þurfti að vísa 300 manns sem höfðu skráð sig í jólamat fyrir þessi jól frá vegna sóttvarnareglna. Af þeim eru 150 börn. Hvar ætli þau hafi verið um jólin? Á sama tíma voru undanþágur veittar svo efri-millistétt landsins kæmist á jólatónleika og á Jómfrúna í Þorláksmessutradissjón. Ekkert að því. Mig dauðlangaði sjálfum á Jommuna. En mig langaði meira að börnin fengju að borða.
Samfélag sem fórnar lífum, líkamlegri og andlegri heilsu ungmenna fyrir hagsmuni (mjög) fullorðins fólks er sjúkt. Virkilega sjúkt. Samfélag sem fórnar hagsmunum þeirra sem þurfa að sækja í félagsskap og mataraðstoð Hjálpræðishersins um jól á altari sóttvarna en er til í að sjá í gegnum fingur sér þegar kemur að klístruðum jólatónleikum, enda neyðin ekki það mikil, er sjúkt.
Ég spurði aðstoðarmann Landlæknis hvers vegna ekki lægi fyrir fjöldi sjálfsmorða nema fyrir fyrri helming árs, og það „bráðabirgðatölur.“ Nú, það er vegna skorts á réttarmeinafræðingum. Það er samt hægt að greina hvert einasta smit ofan í kjölinn, raðgreina í ræmur og elta hvar þúsundir manna hafa hóstað, hnerrað og heilsast marga daga aftur í tímann. En það er ekki hægt að taka saman hversu margir tóku eigið líf í þessu landi síðustu sex mánuði. Það er sjúkt.
Stefna íslenskra heilbrigðisyfirvalda er helsjúk.
Pistillinn birtist fyrst sem jólahugvekja á samfélagsmiðlum. Hann er hér birtur í heilu lagi.