fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Þrjár góðar bækur á jólum

Eyjan
Sunnudaginn 26. desember 2021 15:25

Júlíus Sesar - Mynd/WikiData

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líkt og flestir var ég alinn upp við að lesa Morgunblaðið. Enn er það þannig að ég get ekki farið út úr húsi á morgnanna án þess að fletta Mogganum — og Fréttablaðinu auðvitað líka. Og ég segi „fletta“ því vitaskuld kemst vinnandi fólk ekki yfir að lesa nema lítinn hluta þess efnis sem er í blöðunum. Það eru því umfram allt fyrirsagnir og útdreginn texti sem er lesinn. Útdráttur úr forystugrein Morgunblaðsins á Þorláksmessu hljóðaði svo: „Fyrst kúga þeir Pólland. Svo Ungverjaland. Fram nú allir í röð.“ Hafandi nýlesið fréttaskýringu í Economist um útþennslustefnu Rússa taldi ég hér vera að finna einhverjar útleggingar á því efni en við nánari lestur var „kúgarinn“ ekki í austri heldur vestri. Í huga höfundar forystugreinarinnar var Evrópusambandið að „kúga“ stjórnvöld í Póllandi og Ungverjalandi.

Veni, vidi, vici

Ég ætla að fá að víkja nánar að umræddum Þorláksmessupistli Morgunblaðsins hér á eftir en vendi fyrst kvæði mínu í kross. Þar sem nú eru jól er við hæfi að ræða um bækur. Winston Churchill hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1953, ekki hvað síst fyrir sex binda stríðsárasögu sína en hann hafði sagt að dómur sögunnar um verk sín yrði sér hagfelldur — því hann hygðist rita hana sjálfur. Í söguriti forsætisráðherrans var sannarlega vitnað til heimilda með rækilegum hætti (þó svo að deila megi um sumar útleggingar Churcills). Ekki spillir svo fyrir að bækurnar voru ritaðar á fallegri ensku sem unun er að lesa.

Sigurvegararnir skrifa söguna og besta dæmið þar um er líklega Commentarii de Bello Gallico eða Um Gallastríðið eftir Júlíus Cæsar einn fræknasta herforingja sögunnar sem að lokum var kjörinn einvaldur Rómaveldis ævilangt. Þjóðernissinnar á okkar dögum líkja flóttamannavandanum oft við innrás. Þær líkingar eiga sjaldnast fullan rétt á sér en Gallastríðið hófst sannarlega með einhvers konar „flóttamannakrísu“ — innrás þjóðflokks sem bjó þar sem nú er Sviss og Rómverjar nefndu Helveta. Þeim fannst að sér þrengt í Ölpunum og réðust suður í hin frjósömu héruð þar sem nú er Suður-Frakkland og Norður-Ítalía. Cæsar sá þetta fólk sem raunverulega ógn við veldi Rómverja og réðst til atlögu; brytjaði hermenn þeirra niður í bardaga og vísaði hundruð þúsunda Helveta aftur upp í fjöllin þar sem þeir ættu heima.

Þetta var bara upphafið á Gallastríðinu og á níu ára tímabili lagði Cæsar undir sig hvern þjóðflokkinn á fætur öðrum. Fyrir vikið ruddi latnesk tunga og rómversk menning sér rúms og á þeim grunni reis síðar franskan og frönsk menning. 

Rómaveldi og Evrópusambandið

Um Gallastríðin er ekki hlutlægt sagnfræðirit heldur áróðursrit á braut Cæsars til áhrifa og valda — rit sem varðaði leið hans til æðstu metorða. Einveldisskeið hans stóð þó stutt og flestir þekkja söguna af samsæri þeirra Brútusar og Cassíusar. Cæsar var ráðinn af dögum í öldungaráðinu 15. mars árið 44 fyrir Kristburð. (Og vel að merkja: Cæsar mælti ekki hin fleygu orð „Et tu Brute?“ Það er tilvitnun í Shakespeare-leikritið.)

Eftir daga Cæsars komst á keisarastjórn en Octavíanus, fyrstur keisara, hlaut nafnið Imperator Cæsar Augustus. Til þessa titils eru sótt heiti keisara í frönsku og ensku (empereur og emperor) og af nafni Cæsars sjálfs er dregið orðið Keiser í þýsku og czar á rússnesku. Keisarar síðari alda litu á sig sem arftaka Cæsars í einhverjum skilningi og nær sú saga allt fram til loka ófriðarins mikla 1918. Einvaldurinn Cæsar lét taka upp nýtt tímatal sem við hann var kennt og var við lýði hér á landi fram til ársins 1700 og í ríkjum rétttrúnaðarkirkjunnar fram á 20. öld og eftir Júlíusi Cæsar nefnum við mánuðinn júlí.

Í jólahefti Economist er bent á merkilegar hliðstæður Rómaveldis við samtíma okkar. Rétt er að hafa þann fyrirvara á slíkum samanburði að rómverskt samfélag var fjarri því að vera mannúðlegt í nútíðarskilningi. Fyrir upptöku kristninnar tíðkaðist til dæmis útburður barna. En hvað sem því líður þá urðu þær þjóðir sem brotnar voru undir yfirráð Rómverja að rómverskum borgurum og sem þegnar Rómarkeisara var þeim heimil „frjáls för“ eins og það er kallað í Evrópurétti samtímans. Þeir gátu starfað hvarvetna innan hins víðlenda ríkis sem náði yfir nálega allan hinn þekkta siðmenntaða heim. Það var ekki hvað síst af þessum sökum sem íbúar skattlandanna tóku rómverskum yfirráðum jafnan fagnandi og skýrir hvers vegna Rómaveldi stóð um aldir. Meira að segja afkomendur leysingja gátu með harðfylgi komist til æðstu metorða og jafnvel orðið keisarar.

Réttindin koma að utan

Lögspekingar Rómaveldis lögðu grunninn að lögfræðinni sem sjálfstæðri fræðigrein, margar meginreglur vestræns réttar koma beint úr Rómarréttinum og enn eru þær orðaðar á latínu. Nefna má pacta sunt servanda eða samningar skulu standa, in dubio pro reo, vafa skal túlka sökunaut í hag, og nulla poena sine lege sem útlegst sem að engum verði refsað án lagaheimildar. Sameiginlegur lagagrundvöllur hins víðlenda ríkis auðveldaði til muna öll viðskipti og sama má segja um Evrópurétt okkar tíma. Frá Rómverjum er líka kominn hugmyndin um að lög þurfi að vera borgurunum kunn til að þeir geti skipulagt líf sitt. Borgarinn þarf að vita hvernig yfirvöldin muni nota þvingunarvaldið og undir hvaða kringumstæðum. Þetta er grundvallarinntak réttarríkisins sem á undir högg að sækja víða í Evrópu okkar daga — einkanlega í Rússlandi en líka í Ungverjalandi sem nefnt var í áðurnefndri forystugrein Morgunblaðsins. Og það er sökum þess að vegið hefur verið að grundvallarstoðum réttarríkisins og lýðræðisins sem Evrópusambandið hefur haft afskipti af athöfnum stjórnarinnar í Búdapest. Réttindi borgaranna koma oft fyrir erlend áhrif og afskipti. Íslandssagan geymir mörg ágæt dæmi þar um. Þannig voru það dönsk stjórnvöld sem settu Íslendingum mannréttindi með stjórnarskránni 1874. Fram til þess tíma ríkti hvorki prentfrelsi né trúfrelsi hér á landi.

Vitanlega hafa menn margvíslegar skoðanir á Evrópusambandinu. Það er um margt svifaseint skrifræðisbákn en fæstum íbúum Ungverjalands eða Póllands kemur til hugar að yfirgefa bandalagsríki sín. Ekki eru nema þrír áratugir liðnir síðan bundinn var endir á ógnarstjórnir kommúnisma í mið- og austanverðri álfunni þar sem íbúarnir voru lokaðir í fangelsisríkjum. Vörnin gegn slíku stjórnarfari felst ekki hvað síst í því að bindast öðrum ríkjum álfunnar nánum böndum. Það hefur saga eftirstríðsáranna kennt okkur.

Hercule Poirot á brautarstöðinni í Aleppo

Og úr því að ég minntist á bækur þá las ég dögunum Murder in the Orient Express, eða Morðið í Austurlandahraðlestinni þar sem Agatha Christie lætur Hercule Poirot takast á við eitt sitt erfiðasta mál. Bók Christie er fyrir löngu orðin sígild í flokki glæpasagna en þrátt fyrir alla framþróun mannsandans umliðna áratugi þá er Austurlandahraðlestin ekki lengur til. Stríðandi fylkingar hafa undanfarna öld verið iðnar við að sprengja í sundur lestarteina sem áður gerðu efnuðum Vesturlandabúum kleift að ferðast með járnbrautarlest alla leið til Bagdad. Og sú var tíð að hægt að fá sér far með lest frá Marokkó austur til Beirút og þaðan norður til Konstanínópel. Engir lestarteinar fara lengur yfir landamæri á þessum slóðum. Saga Christie hefst í Aleppo í Sýrlandi og það sem eftir var af brautarteinum þaðan austur til Íraks var sprengt af herjum Íslamska ríkisins fyrir fáeinum árum.

Hin algjöra sundrung þjóða og þjóðarbrota Mið-Austurlanda var evrópskur veruleiki lungann úr 20. öld. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra komst ágætlega að orði um þetta efni í áramótaræðu 1966: „Fásinna er, að nokkur þjóð geti nú á dögum lifað án samvinnu við aðra.“ Þar nefndi hann líka að einangrun og höft millistríðsáranna hefðu blandast 

„þjóðernishroka, svo að hver einstakur tók sér sinn rétt sjálfur, hirti eigi um alþjóðalög heldur gerðist dómari í eigin sök. Sjálfbirgingshátturinn hleypti svo skjótlega seinni heimssyrjöldinni af stað. Sem betur fer hafa menn lært svo mikið af öllum þeim ósköpum, að nú eru allt önnur viðbrögð en áður fyrri. Samvinna og vaxandi skilningur þjóða í milli ráða nú í stað einangrunar og sjálftöku áður. Við eigum þess vegna ekki að óttast samvinnu við aðra, heldur sækjast eftir henni til að bæta landið og lífskjör fólksins, sem í því býr.“

Þessi orð Bjarna eru ágæt hugvekja á jólum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið