Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sem og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir ekki forsvaranlegt að „takmarka mannréttindi og athafnafrelsi fólks til langframa vegna hugsanlegs álags á heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstéttirnar.“
Þetta kemur fram í áramótapistli hennar sem birtist hjá Kjarnanum.
Þórdís rekur að fyrir ári síðan hafi landsmenn verið bjartsýnir á að bóluefni við COVID-19 gæti kveðið niður faraldurinn. Raunin reyndist þó önnur.
„Samfélagið er allt í skugga þessa langvarandi ástands. Margir eru kvíðnir og hræddir. Fjölmiðlar eru uppfullir af margvíslegum fréttum, flestum uggvekjandi. Í umræðunni fá neikvæðar og kvíðavaldandi fréttir jafnan meiri sess en fréttir sem fela í sér bjartsýni og von.“
Þórdís segir að heilbrigðiskerfi Íslendinga sé sagt ekki ráða við ástand þar sem fleiri en 40-60 greinist smitaðir á dag. Sem sé undarlegt í ljósi þess að nú þegar hvert smitmetið fellur á eftir öðru liggi aðeins 11 einstaklingar inni.
Sóttvarnaaðgerðir hafi gríðarleg áhrif á líf barna og ungmenna sem þurfi að einangra sig dögum saman jafnvel þó þau séu einkennalaus. Ungmenni séu að missa af mikilvægum tíma í félagslífinu og þessar fórnir séu þau að færa þrátt fyrir að faraldurinn valdi að jafnaði litlum veikindum meðal þess aldurshóps.
„Sem samfélag stöndum við því frammi fyrir ákaflega erfiðri og vandasamri spurningu: Er forsvaranlegt að takmarka mannréttindi og athafnafrelsi fólks til langframa vegna hugsanlegs álags á heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstéttirnar?“
Þórdís segir svarið hennar við ofangreindri spurningu ljóst.
„Mitt svar við þessu er nei. Svarið getur ekki verið annað. Slíkar aðgerðir getum við einungis réttlætt ef um tímabundið neyðarástand er að ræða þar sem við sjáum til lands um hvenær unnt verði að aflétta slíkum hömlum.“
Sagan hafi kennt okkur að það sé fátt hættulegra lýðræði og mannréttindum en viðvarandi ótti og neyðarástand sem heimili valdhöfum gífurleg afskipti af borgurum sínum. Nú sé kominn tími til að horfa á stærra samhengið. Hvaða áhrif faraldurinn og takmarkanir hafi á geðheilsu og lífsgleði, á jaðarsetta hópa, á ónæmi ungra kynslóða fyrir öðrum sjúkdómum og fleira.
„Hvaða áhrif hefur það í samfélaginu þegar lögreglu er í auknum mæli falið það hlutverk að hafa afskipti af einkalífi borgaranna í nafni sóttvarna? Mun gagnrýnin umræða og raunverulegt frjálsræði í vísindum halda velli? Tekst okkur að standa vörð um dýrmæt mannréttindi á borð við tjáningarfrelsi, samkomufrelsi og ferðafrelsi? Þetta eru mælikvarðar sem verður að hafa í huga.“
Þórdís segir að nú séu nærri tvö ár liðinn frá því að COVID nam hér land, og tvö ár skipti sérstaklega miklu máli hjá börnum og ungmennum. Það sé því ekkert smáræðismál ef fleiri ár verði tekin af þessum hópi.
„Um leið og ég óska lesendum gleðilegrar hátíðar lýsi ég þeirri einlægu von minni að áramótapistlarnir í lok ársins 2022 einkennist af bjartsýni, hugrekki og lífsgleði—og fögnuði yfir því að samfélagið sé aftur komið á réttan kjöl.“