Í dag mun ríkisstjórnin að öllum líkindum kynna nýjar sóttvarnareglur. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hefur skilað inn minnisblaði sínu til heilbrigðisráðaherra, en svo virðist vera sem upplýsingum úr því hafi verið lekið til fjölmiðla. Fram hefur komið að Þórólfur hafi lagt til tuttugu manna samkomutakmarkanir og tveggja metra reglu.
Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins veltir þessu minnisblaði og leka fyrir sér í færslu sem birtist á Facebook-síðu hans. Hann telur að blaðinu hafi verið lekið til þess að láta Þórólf líta illa út, á meðan Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sé látinn líta vel út. Gunnari grunar að í dag muni Willum tilkynna þrjátíu manna fjöldatakmarkanir, og því virðast mildari en Þórólfur.
„Hver lak minnisblaði Þórólfs? Svar: Heilbrigðisráðuneytið, líklega aðstoðarmaður ráðherra. Þetta er þekkt aðferð til að færa til ábyrgð og brjóta upp slæmar fréttir. Án leka hefði Willum mætt á morgun og tilkynnt um 30 manna fjöldatakmarkanir og 300 manna hólf skilgreind á fjöldasamkomum og verið vondi kallinn. Með leka mun Willum koma fram á morgun og tilkynna að hann hafi ákveðið að setja á mildari takmarkanir en Þórólfur lagði til; 30 manna fjöldatakmarkanir og 300 manna hólf skilgreind á fjöldasamkomum. Þá er Þórólfur vondi kallinn en Willum sá mildi.“
Gunnar segir að Þórólfur hafi ekki haft neinn hag af því að leka upplýsingum úr minnisblaðinu. Og skrifar í kjölfarið harðorða fullyrðingu um Framsóknarflokkinn, sem hann segir ekki snúast um innihald heldur yfirborðsmennsku.
„Þórólfur hafði engan hag af því að leka minnisblaðinu, aðeins Willum. Framsóknarstjórnmál snúast aldrei um innihald (nema hvað markmiðið er að auga mennina sem rændu eignum samvinnuhreyfingarinnar) en ætíð um yfirborðsmennsku.“