Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, hefur dregið framboð sitt til baka og hyggst ekki gefa kost á sér til endurkjörs í komandi prófkjörsslag.
Hildur Björnsdóttir tilkynnti fyrir tæpum tveimur vikum að hún myndi sækjast eftir því að verða næsti oddviti Sjálfstæðismanna og að hún vildi verða borgarstjóri Reykjavíkur. Því stefndi í baráttu um fyrsta sætið þeirra á milli en nú er ljóst að af þeim slag verður ekki.
Eyþór tilkynnti þessa ætlun sína í Facebook færslu nú rétt eftir miðnætti í kvöld.
Í færslunni segir Eyþór að ákvörðunin sé tekin af persónulegum ástæðum, en ekki pólitískum og að hann „óttist ekki niðurstöðu í nokkru prófkjöri.“
Þá segir hann fremur vilja einbeita sér að sínum persónulegum málum. „Fram undan er löng og ströng kosningabarátta sem kallar á að allt annað víki á meðan. Ég hef einfaldlega komist að þeirri niðurstöðu að ég þurfi og vilji meiri tíma til að sinna mér og mínu, heimili og hugðarefnum. Nú er það annarra að taka við keflinu í því boðhlaupi sem pólitíkin er,“ skrifar Eyþór meðal annars.
Færslu Eyþórs má sjá hér í heilu lagi.