Á ári komanda verður liðin öld frá því að íslenska krónan varð til sem sérstakur gjaldmiðill. Þess mun ekki verða minnst með hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum undir skini 22 milljóna króna ljóskastara hvað þá að efnt verði til móttöku framan við Stjórnarráðið þar sem reynt verður að frysta konungborna gesti í hel. Kannski seðlabankastjórinn sendi þó frá sér enn eitt alþýðlega sagnfræðiritið af þessu tilefni — en stjórnmálamennirnir munu hafa sig hæga. Ekki eingöngu vegna þess að saga krónunnar er hörmungarsaga heldur líka vegna þess að sjálfstæð gengisskráning var nauðvörn hagkerfis á heljarþröm.
Þegar Ísland varð sjálfstætt ríki 1918 hvarflaði ekki að nokkrum manni að hér yrði notast við séríslenskan gjaldmiðil. Vitaskuld ætlaði hið nýfrjálsa ríki að halda fast við norrænu krónuna, en Noregur, Svíþjóð og Danmörk höfðu haft með sér myntbandalag frá árinu 1873. Brátt syrti í álinn og í byrjun þriðja áratugarins voru útflytjendur að mestu hættir að selja bönkunum gjaldeyri — gjaldeyrisviðskiptin fóru nær eingöngu fram á óopinberum markaði. Íslendingar voru nauðbeygðir við svo búið til að taka upp sjálfstæða gengisskráningu og til varð minnsta myntsvæði heims.
Og úr því ég minntist á seðlabankastjórann þá hefur hann í ágætum fræðiskrifum sínum komist svo að orði að lungann úr 20. öld hafi Ísland verið „þróað ríki með vanþróaða fjármálastarfsemi“. Í byrjun fjórða áratugarins var komið á skilaskyldu gjaldeyris og lögð voru á víðtæk innflutnings- og fjárfestingahöft. Um íslenskt efnahagslíf var reistur haftamúr og því fylgdi að vonum spilling og gegndarlaus sóun verðmæta. Samhliða var hafinn umfangsmikill ríkisrekstur. Stofnuð Bifreiðaeinkasala ríkisins, Viðtækjaverslun ríkisins, Grænmetisverslun ríkisins og þannig mætti lengi telja. Fjárfestingahöft og óstjórn í efnahagsmálum þessa tíma birtust til að mynda í því að á árunum eftir seinna stríð bjó stór hluti Reykvíkinga í heilsuspillandi bráðabirgðahúsnæði, jafnvel án rennandi vatns. Uppbyggingin hefði getað orðið miklu hraðari hefðu menn brotist fyrr út úr höftum sem voru tilbúin af íslenskum stjórmálamönnum.
Svo allrar sanngirni sé gætt
Hverfum nú til samtímans en í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, eru boðuð aukin fjárframlög til ríkisstofnana. Báknið hefur þanist út í tíð vinstristjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Skattar verið hækkaðir og í stað þess að einfalda regluverk er kerfið flækt, nú seinast með illskiljanlegri uppstokkun ráðuneyta. Ég heyri oft á tali fólks að aldrei hafi neitt verið að marka loforð sjálfstæðismanna um frelsi einstaklingsins, lægri skatta og minni ríkisumsvif. Flokkurinn sé í reynd sami kerfisflokkurinn og allir hinir — jafnvel meiri ef eitthvað er.
Við nánari skoðun eru fullyrðingar af þessu tagi ekki fyllilega sanngjarnar sé litið til sögunnar. Þeir tímar hafa komið að sjálfstæðismenn hafa í verki lagt rækt við grundvallargildi flokksins. Höftin sem að framan voru nefnd voru að stórum hluta afnumin á fyrstu árum viðreisnarstjórnarinnar og undir forystu Bjarna Benediktssonar eldri gengu Íslendingar í Fríverslunarbandalag Evrópu árið 1970. Á árunum 1983–1987 urðu ýmsar breytingar í frjálsræðisátt í fjármálaráðherratíð Alberts Guðmundssonar og á tíma Matthíasar Á. Mathiesen sem viðskiptaráðherra. En fyrir forgöngu þess síðarnefnda var verðmyndun gefin frjáls á langflestum vöruflokkum, öllum fjármálastofnunum veitt heimild til gjaldeyrisviðskipta, komið á frelsi í vaxtaákvörðunum og ekki þurfti lengur leyfi til úflutnings iðnaðarvara.
Fjármálaráðherrann Albert lagði fram frumvarp til laga um sölu alls átján ríkisfyrirtækja. Sú einkavæðing fór ekki hratt af stað en gríðarlegt átak varð í þeim efnum eftir 1991 þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum og Friðrik Sophusson gerðist fjármálaráðherra. Fjöldi ríkisfyrirtækja var seldur á næstu árum, þar á meðal Lyfjaverslun Íslands, Ríkisprentsmiðjan Gutenberg, Jarðboranir, Ferðaskrifstofa ríkisins, framleiðsludeild ÁTVR, Síldarverksmiðjur ríkisins, hlutur ríkisins í Skýrr, Áburðarverksmiðjan og þannig mætti lengi telja auk þess sem Skipaútgerð ríkisins var lögð niður.
Áfram var haldið á sömu vegferð eftir að samstarf tókst með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og 1997 fiskveiðasjóði, iðnlánasjóði, iðnþróunarsjóði og úflutningssjóði steypt saman í nýjan banka sem fékk nafnið Fjárfestingarbanki atvinnulífsins og varð merkisberi nýrra tíma í íslensku fjármálalífi.
Hugmyndafræðileg endurnýjun nauðsynleg
Samhliða einkavæðingunni á tíunda áratugnum var sett fram metnaðarfull áætlun um bætta stjórnsýslu. Stjórnsýslulög og upplýsingalög litu dagsins ljós og samdar voru leiðbeiningar til embættismanna um framkvæmd skilvirkrar stjórnsýslu. Einnig voru gerðar áætlanir sem nefndust „nýskipan í ríkisrekstri“ og höfðu það að markmiði að ríkið gæti sinnt skyldum sínum við borgarana á eins „hagkvæman, stjótvirkan og árangursríkan hátt og kostur væri,“ eins og það var orðað. Þetta var öðrum þræði hugsað til að veita íslenskum fyrirtækjum forskot í vaxandi alþjóðlegri samkeppni. Síðan þá hefur orðið mikil afturför. Afgreiðsla erinda hjá hinu opinbera dregst von úr viti þrátt fyrir starfsmenn ríkisins sé miklu fleiri en áður var.
Dæmin sýna þó að hægt er að ráðast til atlögu við kerfið, selja ríkisfyrirtæki og minnka umsvif hins opinbera en um leið bæta þjónustu við borgarana. Til þess þarf þó hugarfarsbreytingu og hugmyndafræðilega endurnýjun á mið- og hægrivæng stjórnmálanna. En meðan flokkarnir eru reknir sem opinberar stofnanir fyrir skattfé er kannski ekki við því að búast að nokkur raunveruleg umskipti geti átt sér stað. Á hundrað ára afmæli hinnar séríslensku örmyntar á næsta ári væri þó við hæfi að minnast þess að þeir menn voru til sem gátu ráðist til atlögu við hörmungar sem hún átti stóran þátt í leiða yfir þjóðina. Ef ekki hefði verið fyrir þær aðgerðir værum við nú á öðrum og verri stað í flestu tilliti.