Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, gagnrýnir stjórnvöld og sóttvarnaraðgerðir harkalega í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Hann segir að aðgerðir hafi verið eðlilegar fyrir ári síðan, en þá hafi bólusetningar ekki verið komnar af stað af neinu viti, og nú sé hún nánast fullbólusett. Auk þess séu alvarleg veikindatilfelli nú fá.
Hann telur að aðstæður ættu að bjóða upp á eðlilegt líf þessi jól, en það sé ekki í boði í nafni sóttvarna. „Nú eru hins vegar flestir þeirra sem hnepptir eru í varðhald, þ.e. sóttkví eða einangrun, fullfrískir eða finna fyrir „léttum flensueinkennum.“ segir Bergþór og bendir á að þegar pistill sinn er skrifaður séu ellefu á sjúkrahúsi, tveir á gjörgæslu, 2.449 í sóttkví og 1.724 í einangrun.
Bergþór segir að ástandið sé ekki sjálfum heimsfaraldrinum að kenna, heldur sé það „léleg stjórn heilbrigðismála undanfarin tvö ár“ sem beri sökina. Hann segir að Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi sjávarútvegsráðherra, beri ábyrgð á því.
„Fátt hefur verið gert til að auka getu spítalans til að taka á móti þessum alvarlegu veikindatilfellum. Rúmum hefur ekki fjölgað og fráflæðisvandi spítalans hefur ekki verið leystur. Því fé sem veitt var til Landspítalans, umfram það sem áður var, virðist ekki hafa verið varið til að leysa brýnasta vandann er viðkemur Covid-19, á þeirri stöðu ber fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem enn situr í ríkisstjórn, fulla ábyrgð.“
Í lok pistils síns fullyrðir Bergþór að það sé grafalvarlegt að læsa fólk inni í sóttkví, sérstaklega þegar það finni ekki fyrir einkennum. Þá segir hann mikilvægt að fólk átti sig á þessu sem fyrst.
„Það hefur kannski gleymst í öllu atinu hjá okkar ágætu ráðherrum að það er grafalvarlegt mál að læsa fólk inni. Fólk sem er ekki einu sinni veikt. Fólk sem hefur ekkert gert af sér annað en að fylgja öllum leiðbeiningum, boðum og bönnum stjórnvalda í heimsfaraldri – bólusett sig ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur þrisvar undir því loforði að þá getum við horfið aftur til eðlilegs lífs.
Þetta má ekki gerast aftur – fyrsti tíminn er bestur til að átta sig á því – frelsi okkar og geðheilsa er í húfi.“