Wall Street Journal segir að Kínverjar séu nú að vinna að því að fá að byggja sína fyrstu flotastöð í Miðbaugs-Gíneu. Ætlunin er að nota hana til að vera með örugga höfn fyrir kínversk herskip við Atlantshaf og til geymslu á skotfærum. Ef af verður, verður þetta fyrsta herstöð Kínverja við Atlantshafið og þar að auki í næstum beinni skotlínu við austurströnd Bandaríkjanna.
Umfjöllun Wall Street Journal byggist á leynilegum skýrslum bandarískra njósnastofnanna og upplýsingum frá heimildarmönnum innan stjórnkerfisins. Heimildarmennirnir segja að þróun mála veki áhyggjur í stjórnkerfinu.
Jon Finer, varaþjóðaröryggisráðgjafi, fór til Miðbaugs-Gíneu í október til að reyna að sannfæra forseta landsins um að hafna málaumleitunum Kínverja. Ekki liggur fyrir hvort ferðin bar árangur.
Í leiðara Global Times, sem er enskumælandi málgagn kínverska kommúnistaflokksins, segir að hvorki Kína né Miðbaugs-Gínea hafi staðfest það sem Bandaríkin segja um fyrirhugaða flotastöð. „Ef Kína hefur í hyggjur að reisa birgðastöð fyrir flotann í þessu skyni (vopnakapphlaupi við Bandaríkin, innsk. blaðamanns) þá verður það öðruvísi en Bandaríkin ímynda sér. Þetta myndi koma svæðinu að gagni án þess að valda því skaða,“ segir í leiðaranum.
Það er hafnarborgin Bata sem er sögð koma til greina sem flotastöð. Kínverjar hafa nú þegar komið að fjármögnun og byggingu hafnar í borginni en góðir vegir liggja frá henni til Gabon og enn lengra inn í Afríku.
Miðbaugs-Gínea er fyrrum spænsk nýlenda sem fékk sjálfstæði 1968. Landið samanstendur af meginlandinu og fimm eyjum. Höfuðborgin Malabo er á eyjunni Bioko en Bata, þar sem Kínverjar eru sagðir vilja byggja flotastöð, er á meginlandinu. Um 1,4 milljónir búa í landinu sem býr yfir auðugum olíulindum. Teodoro Obiang Nguema Mbasogo hefur verið forseti landsins síðan 1979 og nokkrir af sonum hans gegna mikilvægum ráðherraembættum.