Þetta sagði Laputina, sem áður var einn af æðstu yfirmönnum úkraínsku leyniþjónustunnar, í samtali við Sky News. Hún sagði að ef Vladímír Pútín, forseti Rússlands, ákveði að beita hernum gegn Úkraínu þá muni það hafa afleiðingar langt út fyrir úkraínsku landamærin. „Ef Rússar gera innrás núna, þá ættuð þið að huga að Balkanskaga. Því sem Rússar eru að gera í Serbíu núna, þeir eru að reyna að efna til ófriðar á Balkanskaga,“ sagði hún og bætti við: „Við tökum einnig upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar með í reikninginn.“
Þegar hún var spurð hvort hætta sé á að innrás Rússa í Úkraínu muni hrinda þriðju heimsstyrjöldinni af stað, sagði hún að hætta væri á því. Það sé ekki ólíklegt. Það þurfi því að veita málefnum Úkraínu mikla athygli vegna öryggis Evrópu. „Þetta, stríð vegna innrásar Rússa í Úkraínu, mun verða mun víðtækara en bara í Úkraínu,“ sagði hún.
Hún sagði að meirihluti 400.000 uppgjafahermanna á aldrinum 20 til 60 ára sé reiðubúinn til að grípa til vopna og verja Úkraínu ef Rússar ráðast á landið.