Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem Prósent gerði. Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag.
„Þetta endurspeglar auðvitað það að atburðirnir sem áttu sér stað í norðvestri voru alvarlegir og meiriháttar klúður. Þeir hafa örugglega orðið til þess að rýra traust á kosningafyrirkomulaginu upp að einhverju marki, þótt það traust sé líklega ekkert horfið,“ er haft eftir Eiríki Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, sem sagði niðurstöður könnunarinnar ekki koma sér á óvart. Búast hafi mátt við þessu miðað við alvarleika málsins. „Það er líka erfitt að átta sig á hvað hinir óánægðu hefðu viljað gera í staðinn. Hvort þeir hefðu viljað láta fyrri talningu standa, hvort þeir hefðu viljað láta kjósa aftur í Norðvesturkjördæmi eða hvort kosningarnar yrðu í heild sinni ógildar. Það liggur ekki fyrir,“ sagði hann.
Könnunin leiðir í ljós að fólk á aldrinum 25 til 44 ára er óánægðast með afgreiðslu þingsins á málinu. Aðeins 27% úr þessum hópi eru ánægð með afgreiðsluna en rúmlega 50% eru óánægð.
Samhliða hækkandi aldri þátttakenda eykst ánægja þeirra með afgreiðslu Alþingis á málinu en mælist þó ekki yfir 50%. Lítill munur er á afstöðu kynjanna en karlar eru þó örlítið sáttari við afgreiðsluna en konur og svipaða sögu er að segja af afstöðu fólks eftir búsetu. Íbúar á landsbyggðinni eru örlítið sáttari við niðurstöðuna en íbúar á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar svörin eru skoðuðu út frá tekjum svarenda kemur í ljós að fólk í tekjulægsta hópnum er óánægðast með afgreiðsluna en fjórðungur fólks úr þeim hópi er hvorki óánægt eða ánægt með afgreiðsluna.
Þegar svörin eru borin saman við hvað svarendur kusu í síðustu þingkosningum kemur í ljós að 70% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins er ánægt með afgreiðslu þingsins. Hjá Framsókn eru 52% ánægð með afgreiðsluna. 38% kjósenda Vinstri grænna eru ánægð en 40% óánægð.