Morgunblaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að samtals nemi aukin útgjöld vegna heimsfaraldursins og afleiðinga hans 23,6 milljörðum.
Í frumvarpinu er óskað eftir heimild til að verja fjórum milljörðum í kaup á Hótel Sögu undir starfsemi Háskóla Íslands og kaup á jörðinni Mið-Fossum í Borgarbyggð vegna starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.
Í frumvarpinu kemur fram að Hótel Saga verði keypt með Félagsstofnun Stúdenta og verði eignarhlutur ríkisins 73%. Stefnt er að því að nýta húsnæðið undir starfsemi menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Með eigninni fylgir byggingarréttur sem verður hægt að nýta undir aðra starfsemi háskólans í framtíðinni.
Hvað varðar jörðina á Mið-Fossum þá á að nýta hana undir kennsluaðstöðu á sviði reiðmennsku og til að byggja upp aðstöðu fyrir tilraunir, kennslu og nýsköpun í jarðrækt.
Einnig er farið fram á 940 milljóna króna viðbótarframlag til fæðingarorlofssjóðs en ljóst er að greiðslur úr sjóðnum verða meiri á árinu en fjárheimild er fyrir. Ástæðan er að útgjöld vegna fæðinga á síðari hluta ársins 2019 eru hærri en ráð var fyrir gert vegna þess að hærra hlutfall feðra tekur fæðingarorlof á síðari hluta orlofstímabilsins en árin á undan.