Ljóst má þykja að hiti er að færast í borgarmálin. Fjölmiðlar hafa undanfarið þráspurt Dag B. Eggertsson sitjandi borgarstjóra um framtíðarplön hans en hann hefur þó enn ekkert gefið upp. Í Silfrinu síðastliðinn sunnudag sagðist Dagur ætla að hugsa málin yfir hátíðirnar og að svars mætti vænta eftir áramót.
Hildur Björnsdóttir tilkynnti þá í síðustu viku að hún ætlaði sér að verða borgarstjóri og myndi því gefa kost á sér í forystusæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem boðað hefur verið 26. febrúar næstkomandi. Fyrir situr þar Eyþór Arnalds sem hefur sagst ætla að gefa áfram kost á sér.
Hildur mætti Degi B. Eggertssyni í Kastljósinu fyrir viku og voru þau jafnframt bæði gestir Egils Helgasonar í Silfrinu ásamt Eyþóri og Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur frá Viðreisn. Í báðum viðureignum Hildar og Dags voru leikskólamálin fyrirferðamikil. Skaut Hildur meðal annars föstum skotum á Dag og sagði meirihlutann sem hann fer fyrir hafa mistekist að standa við loforð sín um að öllum 18 mánaða börnum yrði komið fyrir á leikskólum borgarinnar á þessu kjörtímabili. Sagði Dagur að gert væri ráð fyrir að kosningaloforðið myndi nást á næsta kjörtímabili.
Þá vísaði Hildur til talna Reykjavíkurborgar um að meðalaldur barna sem komast inn á leikskóla Reykjavíkur sé 29 mánuðir. Sú tala stóð í 26 mánuðum árið 2018 og hefur því staðan versnað á kjörtímabilinu.
Þess má geta að talan 29 mánuðir var fengin frá Helga Grímssyni, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem færði þá skýringu fyrir hækkandi meðalaldri í samtali við RUV að framboð á leikskólaplássum hefðu ekki aukist í samræmi við fjölgun barna.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg sem send var fjölmiðlum nú fyrir hádegi í dag segir Sigrún Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasviðs borgarinnar að meðalaldur barna sem hófu vistun í leikskólum borgarinnar væri 19 mánuðir. 10 mánuðum minna en sami fulltrúi sama sviðs Reykjavíkurborgar sagði fyrir tveimur vikum.
Segir í tilkynningu borgarinnar: „Ýmislegt hefur áhrif á útreikningi á meðalaldri barna sem innritast í leikskóla, m.a. flutningar eldri barna á milli leikskóla og úr öðrum sveitarfélögum eða frá útlöndum, og jafnframt vísað til minnisblaðs þar sem útreikningarnir á þessari 19 mánaða tölu koma fram. Minnisblaðið er hér.
Mbl.is sagði fyrst frá tilkynningu borgarinnar.
Skömmu eftir frétt að frétt Mbl.is fór í loftið birti Hildur færslu á Facebook síðu sinni þar sem hún segir borgarstjóra beita blekkingum með þessari nýju 19 mánaða tölu. „Innritun á leikskóla er ekki það sama og innganga á leikskóla,“ segir Hildur. „Barn getur verið innritað mörgum mánuðum áður en það hefur loks leikskólagönguna.“
Heldur Hildur áfram:
Enn standa tölur borgarinnar um 29 mánaða meðalaldur barna við inngöngu á leikskóla. Það gefur hugsanlega svolítið skakka mynd, því einhver barnanna hófu leikskólagönguna í öðru sveitarfélagi – eða hófu leikskólagönguna í sjálfstætt starfandi leikskóla – hvar einkaframtakið hefur svarað eftirspurn sem borgin hefur ekki mætt.
Stærsta fréttin er auðvitað þessi: Meirihlutaflokkarnir sýna fjölskyldum í borginni þá vanvirðingu að afneita leikskólavandanum.