fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Ánægja í Valhöll og víðar með stílbrot Willums Þórs – Ráðningin á Birni sögð blaut tuska í andlit Svandísar

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 14. desember 2021 13:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líkt og DV sagði frá í gær hefur Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ráðið Björn Zoëga, forstjóra Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi, sem sérlegan ráðgjafa sinn í málefnum Landspítalans. Björn var áður forstjóri Landspítalans. Óhætt er að segja að ráðningin hafi vakið athygli, sem og tilkynningin sem henni fylgdi, en þar stóð:

Umtalsverðar breytingar á rekstri og yfirstjórn Landspítalans munu eiga sér stað á næstunni og því er gríðarlega mikilvægt að sérfróðir aðilar með þekkingu á rekstri slíkrar stofnunar séu til að veita ráð við slíka vinnu.

Er ráðningin sögð enn ein rósin í hnappagat Willum Þórs sem kom nýr inn í ríkisstjórn og varpað beint í djúpu laugina. Reyndar fangar djúpur endi 25 metra busllaugar engan veginn skala vandræðanna sem spítalakerfið hér á landi stendur frammi fyrir og væri nærri lagi að líkja ráðherradómi nýliðans við það að Sigurður Ingi hafi tekið Willum Þór, siglt með hann í Smuguna og varpað honum þar fyrir borði. Slíkur er vandinn.

Nóg komið af sósíalískri dogmatík?

Raunar var það Orðið á götunni skömmu áður en Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynntu annað ráðuneyti Katrínar að Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðismaður með meiru, yrði næsti heilbrigðisráðherra. Guðlaugur er öllum hnútum kunnugur í heilbrigðisráðuneytinu enda staðið þar vakt áður. Var það rætt meðal Sjálfstæðismanna að kominn væri tími á kapítalista í ráðuneytið eftir fjögur ár af dogmatískri trú á hreinræktaðan sósíalisma.

Sagði DV jafnframt frá því í kjölfar tilkynningarinnar að fýla væri meðal Sjálfstæðismanna og upplifðu margir þeirra að þeir hefðu „misst heilbrigðisráðuneytið.“ Slík var trúin á að kominn væri tími á að Sjálfstæðismenn tækju málaflokkinn yfir. Þó voru menn sem sögðu að „sala“ Bjarna á ráðuneytinu til Framsóknarmanna hafi verið klók pólitísk refskák, enda Framsóknarmenn markaðshyggjufólk inn við beinið og var Willum í því samhengi sérstaklega tilgreindur. Þannig hafi Bjarni losnað við sósíalista úr heilbrigðisráðuneytinu án þess að fá pólitíska vesenið sem fylgir því að hafa heilbrigðismálin á sinni könnu á Covid tímum.

Sjallarnir glaðir

En víkjum aftur að Willum, sem kann greinilega að synda.

Meira að segja hörðustu Sjálfstæðismenn keppast nú við að lýsa yfir ánægju með og stuðningi við störf Framsóknarmanns í fagráðuneyti og hefur það líklega ekki gerst síðan Valgerður Sverrisdóttir seldi þeim Landsbankann árið 2002.

Er það Orðið á götunni að þau skref sem stigin hafa verið í heilbrigðisráðuneytinu síðan að Willum tók við hafa verið eins og sniðin að stakki Sjálfstæðisstefnunnar og eru nokkur dæmi nefnd til rökstuðnings.

Eftir aðeins nokkra daga í embætti tilkynnti Willum að hann myndi veita Landspítalanum, að hans frumkvæði, 60 milljónir sérstaklega til þess að úthýsa til einkaaðila hundruð aðgerða og stytta þannig biðlista á Landspítalanum. Er það algjört stílbrot frá því sem þekktist í ráðherratíð forvera Willums sem var sögð sjá rautt þegar minnst var á að einkaaðilar gætu haft eitthvað til heilbrigðismálanna að leggja.

Ráðning Willums á Birni Zoëga er af sama meiði. Björn kom fram í þættinum Dagmál í haust og lýsti þar krefjandi verkefnum sem hann stóð frammi fyrir á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í upphafi Covid faraldursins. Lásu margir gagnrýni á núverandi stjórnendur heilbrigðismála hér á landi úr orðum Björns. Sagði Viðskiptablaðið til að mynda að „margt hafi komið þar fram sem bendir til þess að rekstrarvandi Landspítalans sé mun djúpstæðari en áður var talið.“ Ráðning Björns er þannig annað stílbrotið.

Þá hefur verið um það rætt að Willum sé töluvert líklegri til þess að ganga loks til samninga við sjálfstætt starfandi sérfræðilækna. Þriðja stílbrotið.

Í dag, raunar rétt áður en þessi orð fóru í birtingu á vef DV, tilkynnti svo heilbrigðisráðuneytið að það hefði beint því til Sjúkratrygginga Íslands að láta af kröfu um að talmeinafræðingar hafi starfað í tvö ár sem slíkir áður en ríkið tæki þátt í greiðslum til þeirra. Aðeins þrír mánuðir eru síðan Talmeinafræðingafélagið lét Svandísi heyra það vegna stöðunnar. Fjórða stílbrotið.

Eitt kjörtímabil eru 208 vikur. Af þessu kjörtímabili eru nú liðnar rúmar 11, og hefur Willum setið í ráðherrastól í tvær. Eftir standa 197 vikur. Hver þeirra langur tími í pólitík.

Engu að síður er mörgum það ljóst og um það rætt að Willum siglir nú inn í afgang kjörtímabilsins með mestu forgjöf sem hægt er að hafa í pólitík: Persónulegar vinsældir þvert á flokka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar