Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að einnig stefni í mikla fjárvöntun vegna leyfisskyldra lyfja á næsta ári eða rúma tvo milljarða króna umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Þetta kemur fram í umsögnum Landspítalans um fjárlagafrumvarpið.
Í umsögn spítalans kemur fram að kostnaður vegna leyfisskyldra lyfja verði um 14,7 milljarðar á næsta ári en í frumvarpinu er gert ráð fyrir 12,5 milljörðum til málaflokksins. „Ný en mjög dýr lyf gjörbreyta lífslíkum og lífsgæðum sjúklinga. Heimsmarkaðsverð á mörgum lyfjum hækkar mikið. Reiknaður vöxtur í fjárlagafrumvarpinu er 1,5% en raunveruleikinn þyrfti að vera um 10%. Að óbreyttu er ekkert svigrúm fyrir að taka ný lyf í notkun á árinu 2022 og fjárveitingar duga ekki fyrir þeim lyfjameðferðum sem nú þegar eru í gangi,“ segir í umsögn sem Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítalans, sendi fjárlaganefnd Alþingis.
Í umsögninni eru tekin dæmu um ástæður vaxandi kostnaðar við lyfseðilsskyld lyf. Til dæmis sé reiknað með 270 milljóna króna auknum kostnaði vegna lyfsins innúnóglóbúlín. Þá hafi ný krabbameinslyf, svokölluð PDL-1 hemla, valdið mikilli þróun í meðferð krabbameina og batahorfur sjúklinga hafi farið batnandi. Kostnaðarauki vegna þessara lyfja er 308 milljónir.
Í umsögnum spítalans um frumvarpið kemur fram að þrátt fyrir að margt jákvætt sé að finna í því þá glími hann við langvarandi fjárhagsvanda og undirliggjandi rekstrarvandi á þessu ári er sagður vera einn milljarður og að á næsta ári vanti 1,642 milljónir til að standa undir óbreyttum rekstri. Ef reikniviðmið fyrri fjárlaga væru nú í gildi hefði spítalinn fengið um 1,4 milljarða og er óskað eftir að svo verði áfram. Einnig er lagt til að 387 milljóna króna hagræðingarkrafa á spítalann á næsta ári verði felld niður.