The Guardian skýrir frá þessu. Nýja-Sjáland er bandalagsríki Bandaríkjanna, Ástralíu, Bretlands og Kanada og í skýrslunni er lögð áhersla á mikilvægi þess að viðhalda þessu bandalagi.
David Capie, prófessor og forstjóri Victoria University of Wellington‘s Centre for Strategic Studies, sagði að skýrslan dragi upp nokkuð skýra mynd af breytingum á hernaðarlegri stöðu Nýja-Sjálands. Í henni séu færð rök fyrir því að sunnanvert Kyrrahaf sé ekki lengur friðsælt og afskekkt svæði heldur standi svæðið frammi fyrir áskorunum sem hafi sést víðar á Kyrrahafssvæðinu.
Skýrslan er innlegg í umræður á Nýja-Sjálandi um hvernig á að takast á við samkeppni Kína og Bandaríkjanna í Kyrrahafi. Margir embættismenn og sérfræðingar í Wellington, höfuðborg Nýja-Sjálands, hafa á síðustu árum tekið harðari afstöðu gegn Kína og þrýst á aukið samstarf við Bandaríkin.