Um breiða gangana sem ætlaðir voru til að aka í gegn vögnum með kjötskrokkum liggur megn óþefur af skólpi þar eð pípulagnir hússins eru illa farnar og eina lyftan í byggingunni er vörulyfta enda húsið reist sem kjötiðnaðarstöð.
Við erum stödd í Listaháskóla Íslands í Laugarnesi, stórhýsi Sláturfélags Suðurlands sem það tók aldrei í notkun. Félagið reisti sér hurðarás um öxl, hugðist byggja fullkomna kjötiðnarstöð í Reykjavík og sláturhús á Hvolsvelli á sama tíma og félagið keypti stórt verslunarhúsnæði á Eiðistorgi. Sumarið 1990 sagði þáverandi stjórnarformaður SS um þessar miklu fjárfestingar: „Þetta gat ekki gengið upp. Við lifum á öðrum tímum en fyrir tíu árum þegar lánsfé var ekki verðtryggt.“ Um húsið á Kirkjusandi sagði hann að það væri „lífsnauðsynlegt fyrir félagið að selja þetta hús, svo þungur baggi sé það á félaginu“.
Húsið var auglýst til sölu almennum markaði en ekki bárust tilboð sem Sláturfélagsmenn gátu fellt sig við. Þeir höfðu þó sterk pólitísk tengsl og settar voru fram hugmyndir um að ríkissjóður keypti af þeim húsið á Kirkjusandi. Aðspurður hvort ríkið væri að bjarga Sláturfélaginu með kaupum á húsinu sagði stjórnarformaður SS: „Það er engan veginn víst að ríkið kaupi húsið. En fari svo tel ég að ríkið sé ekki að bjarga okkur heldur að styrkja þá stefnu að það sé meira af hráefnaiðnaðinum úti á landsbyggðinni.“
Allir þingmenn Suðurlandskjördæmis — hvar í flokki sem þeir stóðu — studdu kaup ríkissjóðs á húsinu en Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði húsið „kjörið fyrir Listaháskóla eða Þjóðminjasafn“. Ríkisstjórnin samþykkti kaupin en Svavar Gestsson var þá menntamálaráðherra í stjórn Steingríms Hermannssonar. Húsið var ætlað Listaháskóla sem ekki var stofnaður fyrr en allnokkrum árum síðar. Það var svo loks árið 2002 sem unnin var greining á húsnæðisþörf skólans en vitaskuld hefði þurft að vinna greiningu af þessu tagi rúmum áratug fyrr — áður en ríkið réðst í kaup á ófullgerðri kjötiðnaðarstöð undir óstofnaðan háskóla.
Stjórnmálamenn komu Sláturfélaginu til bjargar og enn mega stúdentar og starfsfólk Listaháskólans búa við skólpdauninn í hálfkláruðum kjötgeymslunum.
Kjötiðnaðarstöðin var „kjörin fyrir Listaháskóla“ sagði stjórnmálamaðurinn og nú segja stjórnmálamennirnir að Hótel Saga sé kjörin fyrir menntavísindasvið Háskóla Íslands en ég gerði þau fyrirhuguðu kaup að umtalsefni í pistli mínum fyrir viku. Á Hótel Sögu eru nýlega endurnýjuð 236 herbergi með jafnmörgum baðherbergjum. Því fylgir eðlilega yfirgengileg sóun að hreinsa þetta allt út og samræmist illa áherslu ríkisstjórnarinnar á umhverfisvernd. Þá má spyrja sig hvernig þrjú þúsund fermetrar neðanjarðar nýtist til háskólastarfsemi en þar mun vera að finna eina fullkomnustu brauðgerðarstöð landsins. Kannski til standi að færa kennslu í bakaraiðn upp á háskólastig? Lykilspurning í þessu sambandi er samt hvernig Hótel Saga samræmist greiningu á húsnæðisþörf menntavísindasviðs. Hvernig lítur sú þarfagreining út?
Í viðtali við Fréttablaðið í gær hvatti Pétur H. Ármannsson arkitekt til þess að farið yrði varlega í breytingar á húsinu í ljósi þess mikla menningarögulega gildis sem það hefði. Eftir að starfsemi hótelsins lagðist af í fyrra hefði komið í ljós hversu mikið gildi það hefði fyrir Háskólasvæðið og Melana. Það sé eins og hverfið sé hálfdautt í kjölfarið.
Ríkisútvarpið greindi frá því í fyrradag að verkfræðistofan Efla hefði gróflega áætlað heildarkostnað á viðhaldi Hótel Sögu um tvo og hálfan milljarð króna en það var með fyrirvara um að verkið væri óhannað með öllu. Í skýrslu verkfræðistofunnar um málið kemur enn fremur fram að fyrri viðhaldsverkefnum hefði verið lokið með ófullnægjandi hætti. Kostnaður við rakaskemmdir á Hótel Sögu gæti numið allt að þremur milljörðum króna. Í sömu frétt var haft eftir formanni Bændasamtakanna að fleiri hefðu haft áhuga á því að kaupa hótelið „en hafa dregið sig í hlé“ eins og hann orðaði það. Dokum nú aðeins við. Áhugasamir fjárfestar voru tilbúnir til að kaupa húsið til áframhaldandi hótelrekstrar en kannski ekki á því verði sem Bændasamtökin vildu fá. Rifjum upp að SS fékk tilboð í hálfkláruðu kjötiðnaðarstöðina á Kirkjusandi — en bara ekki það sem þeir vildu fá og sneru sér því til ráðherra og þingmanna Suðurlandskjördæmis.
Ríkissjóður keypti um miðjan áttunda áratuginn hús Trésmiðjunnar Víðis við Laugaveg sem þarfnaðist gríðarlegra viðgerða. Þjóðviljinn, málgagn Alþýðubandalagsins, sagði Sjálfstæðismenn hafa beitt sér fyrir kaupum á húsinu sem hefði verið í eigu „eins af máttarstólpum Sjálfstæðisflokksins“ og eins aðalútgefanda Vísis. Framsóknarmenn voru í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum á þessum tíma. Slíkar stjórnir voru venjulega kenndar við helmingaskipti og sagði Þjóðviljinn að framsóknarráðherrarnir hefðu í staðinn fengið að kaupa „hús fyrir rannsóknarlögreglu ríkisins af húsgagnasala í Kópavogi sem líka átti bágt og þurfti að gera framsóknargreiða“. Skatturinn er nú með aðsetur í Víðishúsinu.
En kjötiðnaðarstöðin á Kirkjusandi og trésmiðjan á Laugavegi eru ekki einu dæmin um kaup hins opinbera á stórhýsum sem illa seljast á almennum markaði. Fyrir forgöngu Sverris Hermannssonar menntamálaráðherra keypti ríkissjóður hús Mjólkursamsölunnar við Laugaveg undir Þjóðskjalasafn og raunar sér ekki enn fyrir endann á endurbótum þess húsnæðis 36 árum síðar.
Pólitískar björgunaraðgerðir í formi uppkaupa á stórhýsum ættu að heyra sögunni til. Og líklega yrði mun hagstæðari lausn fyrir skattgreiðendur að þeir gæfu Bændasamtökunum einn til tvo milljarða og Háskólinn fengi á móti hús fyrir menntavísindasvið byggt á grundvelli þarfagreiningar á einhverri þeirra lóða sem standa nær aðalbyggingu Háskólans enda er þar nóg byggingarland. Hótel Saga fengi þá áfram að vera hótel og samkomuhús bæjarbúa.