fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Eyjan

Segir útilokað að spá fyrir um úrslitin í oddvitaslagnum hjá Hildi og Eyþóri – Grundvallarágreiningur um skipulagsmál

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 10. desember 2021 12:45

Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Þ. Harðarsson stjórnmálafræðingur segir í viðtali við DV að greinilegur hugmyndafræðilegur ágreiningur sé á milli þeirra Hildar Björnsdóttur og Eyþórs Arnalds, sem bæði gefa kost á sér í oddvitasætið í væntanlegu prókjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor, þegar kemur að skipulagsmálum.

Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála, segir að sú staðreynd að Eyþór hafi fengið á sig mótframboð í oddvitasætinu opinberi veikleika hans sem forystumanns.

Ólafur reifar hinn djúpa hugmyndafræðilega ágreining sem ríkir í skipulagsmálum:

„Það er alveg ljóst að það hefur verið mikill ágreiningur innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um heildarstefnuna í skipulagsmálum í Reykjavík. Hildur og einhverjir fleiri hafa verið í öllum aðalatriðum sammála þeirri sýn sem meirihlutinn hefur á þróun borgarinnar, þ.e. þéttingu byggðar og borgarlínu, þar sem í rauninni er verið að þróa borgina á svipaðan hátt og hefur verið gert í flestum borgum í hinum vestræna heimi. En hinn hluti Sjálfstæðisflokksins hefur áfram lagt áherslu á að Reykjavík verði áfram bílaborg og byggð verið dreifð eins og gert var ráð fyrir í aðalskipulaginu frá 1962. Þarna er mjög skýr stefnumunur á milli Hildar og Eyþórs. Þetta er ekki nýr ágreiningur í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins því bæði Hanna Birn og Gísli Marteinn, þegar þau voru í borgarstjórn, voru á svipaðri línu og áttu t.d. gott samstarf við Dag B. Eggertsson um skipulagsmál. Ágreiningur Hildar við borgarstjórnarmeirihlutann er ekki um skipulagsmál heldur gagnrýnir hún meirihlutann fyrir fjármálastjórn og ýmislegt annað sem búast má við að stjórnarandstaða gagnrýni.“

Ólafur segir að oft og kannski oftast snúist oddvitaval í prófkjörum flokka um persónur en í þessu tilviki sé verið að kjósa um mjög ólíkar meginstefnur í grundvallarmálum og það sé óvenjulegt. Hann treystir sér ekki til að spá fyrir um hvort Hildur eða Eyþór muni hafa betur í prófkjörinu:

„Ég hef engar kannanir séð sem gefa manni vísbendingu um hvort er sterkara. Maður getur giskað á að Eyþór hafi meira fylgi hjá eldri Sjálfstæðismönnum sem virðast hallari undir gömlu línuna í skipulagsmálum og Hildur eigi meira fylgi hjá yngra fólkinu þar sem viðhorfin í skipulagsmálum virðast í meira samræmi við meirihlutann. Eldra fólkið hefur skilað sér betur á kjörstað í prófkjörum en ef Hildi tekst að fá yngri kynslóðina til að fjölmenna í prófkjör ætti hún að eiga góða möguleika. Í augnablikinu treysti ég mér ekki til að spá neinu fyrir um úrslitin.“

Ólafur segir að eftir þær breytingar sem orðið hafi á flokkakerfinu undanfarin ár virðist Sjálfstæðisflokkurinn ekki eiga neina möguleika á að vinna hreinan meirihluta í borginni. Hildur leggi mikla áherslu á að koma flokknum í meirihlutasamstarf og hún ætti að geta átt samleið með flokkunum sem eru í núverandi stjórnarmeirihluta enda sé ekki hugmyndafræðilegur ágreiningur á milli þeirra og hennar í þeim málum þar sem hún hefur gagnrýnt þá, t.d. í leikskólamálum, þar séu allir sammála um stefnuna, þ.e. að slík þjónusta eigi að vera góð, en deilt sé um hversu góð framkvæmdin hafi verið hjá núverandi meirihluta.

Hugmyndafræðilegi ágreiningurinn um skipulagsmál sé hins vegar svo djúpur að erfitt sé fyrir flokka sem ekki eru þar sammála í meginatriðum að mynda meirihlutasamstarf. Út frá því ættu möguleikar Eyþórs til að fara í meirihluta að liggja í samstarfi við Flokk fólksins eða Miðflokkinn, eða þá að Framsókn næði inn borgarfulltrúum, óvíst sé um hverjir verða í framboði þar og hvaða stefnu þeir hafa í skipulagsmálum.

Segir veikleika Eyþórs opinberast

Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála, er innmúraður Sjálfstæðismaður, sem segist ekki taka afstöðu í málinu, þ.e. hann er stuðningsmaður hvorugs frambjóðandans. Gísli bendir á að ef Eyþór væri óumdeildur forystumaður flokksins í borginni myndi engum detta í hug að bjóða sig fram gegn honum:

„Það opinberar ákveðinn veikleika Eyþórs sem forystumanns að einstaklingur í borgarstjórnarflokknum telji sig geta unnið hann í prófkjöri og þá væntanlega leitt flokkinn betur en hann. Það er ekki endilega bara mín skoðun, heldur pólitíski raunveruleikinn í þessu. Ef Eyþór væri óumdeildur forystumaður dytti engum í hug að skora hann á hólm.“

Gísli segir að það sé ekkert leyndarmál að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sé ósamstíga enda hafi honum ekki tekist að höggva skörð í vinstri meirihlutann í borginni:

„Það er ekkert launungarmál að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er sundurleytur og ósamstíga, hluti af hópnum er hugmyndalaus og annar hluti þrífst illa pólitísku starfi. Ég hugsa að fæstir í borgarstjórnarflokknum myndu ná raunverulegum árangri í prófkjöri, svo dæmi sé tekið. Eini aðilinn í hópnum sem hefur farið í prófkjör er Marta Guðjónsdóttir og hún hefur aldrei náð merkilegum árangri. Það var ekki fyrr en að uppstillingarnefnd setti hana á lista sem hún fékk þó ekki nema léttvigtarvægi í borgarmálunum. Það er meðal annars af þessari ástæðu sem Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík hefur ekki tekist að höggva alvöru skarð í vinstri meirihlutann, þrátt fyrir að rekstur borgarinnar sé í molum. Það hafa komið fjölmörg tækifæri til að veita meirihlutanum nauðsynlegt aðhald en borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur þess í stað verið of upptekinn af því að berjast innbyrðis.“

Ekki tekist að fylgja góðum árangri eftir

Gísli bendir á góðan árangur flokksins í síðustu kosningum undir forystu Eyþórs en ekki hafi tekist að fylgja þeim árangri eftir:

„Það er ástæða til að benda á þetta nú þegar það liggur fyrir að það verður slagur í borginni. Eyþór náði góðum árangri í leiðtogaprófkjöri fyrir kosningarnar 2018 og síðan góðum árangri í borgarstjórnarkosningunum og leiddi flokkinn sem fékk yfir 30% fylgi. Maður heyrir á flokksmönnum að síðan þá hafi borgarstjórnarflokkurinn valdið vonbrigðum og það er á ábyrgð Eyþórs að svara fyrir það. Það kann að hljóma kalt af mér að segja það, en þannig er bara pólitíska staðan. Eyþór fer nú inn í oddvitaslag á ný og ólíkt því sem var fyrir fjórum árum hafa þátttakendur í prófkjör meiri upplýsingar um forystuhæfileika hans og pólitíska sýn nú en þeir gerðu þá.“

Gísli segir jafnframt að helsta áskorun Hildar sé að sætta ólík sjónarmið innan flokksins í borgarmálum:

„Hildur hefur vissulega sýnt ákveðna forystuhæfileika og látið mikið að sér kveða. Helsta áskorun hennar verður að ná til fólks í austari hluta borgarinnar. Það ríkir ákveðið menningarstríð í borginni, þar sem vinstri meirihlutinn ásamt hópi fólks úr vesturbæ og miðbæ lítur niður á og talar niður til þeirra sem búa í austar í borginni og í úthverfum. Þetta er vissulega dálítil einföldun en svona er þetta í grófum dráttum. Helsta áskorun Hildar felst í því að sýna að hún sé með stefnu sem báðir hópar geta sætt sig við. Ég er ekki viss um að það hafi tekist ennþá þó svo að hún hafi nú verið þrjú og hálft ár í borgarstjórn, en það má á móti segja að hún hefur heldur ekki verið oddviti flokksins. Nú fær hún tækifæri til að sýna hvernig hún ætlar að sameina þessa hópa og þessi ólíku sjónarmið – ef það er á annað borð hægt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar