Úkraína og fleiri ríki í Austur-Evrópu hafa beðið Bandaríkin um hjálp vegna liðsafnaðar Rússa við úkraínsku landamærin en þar eru nú 100.000 til 175.000 rússneskir hermenn auk mikils magns hergagna.
Úkraína er ekki meðlimur í NATO og því munu Bandaríkin ekki senda hersveitir þangað en öðru máli gegnir um hinna níu ríkjanna sem tóku þátt í fundinum í gær. „Við neyðumst líklega til að styrkja stöðu okkar í NATO-ríkjunum, ekki síst til að styrkja austanverð landamæri þeirra,“ sagði Biden.
Auk Biden tóku leiðtogar Búlgaríu, Tékklands, Eistlands, Ungverjalands, Lettlands, Litháen, Póllands, Rúmeníu og Slóvakíu þátt í fundinum sem stóð í um 40 mínútur.
Fyrir fundinn ræddi Biden við Volodymyr Zelenskij, forseta Úkraínu. Þeir ræddu hvernig Bandaríkin geta stutt Úkraínumenn í deilunum og átökunum við Rússa. Zelenskij sagði Biden að hann væri með „skýrar tillögur“ um hvernig væri hægt að endurvekja friðarferlið í Donbass í austurhluta Úkraínu en þar hafa uppreisnarmenn, hliðhollir Rússum, barist gegn úkraínska stjórnarhernum árum saman og njóta stuðnings Rússa.
Heimildarmaður í ríkisstjórn Biden sagði í síðustu viku við blaðamann Financial Times að Bandaríkin óttist að Rússar muni ráðast inn í Úkraínu snemma árs 2022. Þeir eru sagðir hafa í hyggju að ráðast fram með um 100 herdeildum með um 175.000 hermönnum auk skriðdreka, stórskotaliðs og öðrum búnaði. Vesturveldin hafa hótað Rússum refsiaðgerðum ef þeir ráðast á Úkraínu og segja að umfang þeirra verði svo mikið að Rússar hafi aldrei séð annað eins. Efnahagur þeirra muni skaðast mikið og gera þeim erfitt um vik að eiga í alþjóðlegum viðskiptum og samskiptum.