Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að auk verðhækkana valdi vöru- og aðfangaskortur ýmsum vandræðum. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins (SI) segir að þetta ástand leiði til hærri framleiðslukostnaðar, meiri verðbólgu víða um heim og kaupmáttarskerðingu heimilanna. „Þetta ástand tengist efnahagsbatanum í heiminum sem framboðshliðin hefur átt í erfiðleikum með að mæta,“ er haft eftir honum.
Verðbólga er nú 6,2% í Bandaríkjunum á ársgrundvelli og 4,9% á evrusvæðinu. „Þetta er mjög mikil verðbólga í sögulegu samhengi og yfir verðbólgumarkmiði bæði bandaríska og evrópska seðlabankans,“ er haft eftir Ingólfi.
Fram kemur í umfjöllun blaðsins að liþíum hafi hækkað um 340% á árinu og magnesíum um 153%. Verslunarmenn, sérstaklega í byggingariðnaði, segjast hafa lent í vandræðum vegna skorts á silíkoni og magnesíum.
Haft er eftir Ingólfi að timbur og stál hafi hækkað í verði, allt niður í smæstu skrúfur. Hann sagði að eftirspurn hafi orðið meiri en sem nemur framleiðslu- og flutningsgetu þegar efnahagslífið tók við sér á nýjan leik. Skortur á gámum hafi tafið flutninga á heimsvísu og flutningsverð hækkað. Frá upphafi heimsfaraldursins hefur verð á flutningi á 40 feta gámi frá Austur-Asíu til Norður-Evrópu nær tífaldast.