Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, treysti sér á Alþingi í dag ekki til að segja hver kostnaðurinn er á bak við uppstokkun ráðuneytanna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, beindi fyrirspurn þess efnis til Bjarna undir liðnum Óundirbúnar fyrirspurnir.
Miklar breytingar voru gerðar á Stjórnarráði Íslands eftir að ný ríkisstjórn tók við og tvö ný ráðuneyti urðu til.
Bjarni svaraði Sigmundi svo: „Ég treysti mér ekki til að setja tölu á bak við það en það er ljóst að með því að stofna nýtt ráðuneyti, fleiri en eitt, þá mun verða kostnaður og hann getur hlaupið á hundruðum milljóna þegar upp er safnað fyrir fleiri en eitt ráðuneyti. Það getur vel verið niðurstaðan. En ég vænti þess að hægt sé að fara nánar ofan í saumana á þessu þegar þingsályktunartillaga um þetta efni verður lögð fyrir Alþingi. Það verður ekki stofnað nýtt ráðuneyti án þingsályktunartillögu. Þann kostnað finnst mér að við eigum að setja í samhengi við fjárlögin í heild og öll þau verkefni sem ríkið er að sinna.“
Inn í umræður þeirra blandaðist karp um fylgi flokkanna og sagði þá Sigmundur um Sjálfstæðisflokkinn og svar Bjarna: „Jafnvel þótt fylgið sé með því minnsta í sögu flokksins þá hafa þeir alla vega haft aðgang að kjötkötlunum og því að skipa mönnum í embætti. Eða er þetta ekki ríkisstjórnin sem á fáeinum árum hefur fjölgað opinberum starfsmönnum um níu þúsund og fækkað starfsfólki í einkageiranum um eitthvað svipað, hefur stórkostlega stækka báknið og aukið ríkisútgjöld og kynnir nú einhverjar svakalegar breytingar á skipulagi Stjórnarráðs Íslands sem hæstvirtur fjármálaráðherra hefur ekki hugmynd um hvað muni kosta?“
Bjarni sagði að nákvæmur kostnaður við að koma á fót nýjum ráðuneytum yrði ræddur þegar þingsályktunartillagan kæmi fram: „Ég segi bara fyrirfram að það má allavega gera ráð fyrir að því fylgi kostnaður upp á hundruð milljóna króna.“