Baldur Borgþórsson, fráfarandi varaborgarfulltrúi Miðflokksins, sem gekk úr flokknum fyrir skömmu vegna ósættis við oddvita flokksins í Reykjavík, Vigdísi Hauksdóttur, er genginn í Sjálfstæðisflokkinn.
Baldur segir í tilkynningu á Facebook að honum hafi verið vel tekið í Valhöll:
„Eins og flestum er kunnugt hef ég allt frá upphafi kjörtímabils átt afar gott samstarf við Eyþór Laxdal Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, og hans góða fólk sem hefur í hvívetna verið málefnalegt í sínum störfum og sýnt af sér framkomu sem sómi er að.
Því ættu þessi tíðindi ekki að koma neinum á óvart.
Það var sannarlega góð tilfinning að ganga inn í Valhöll á ný og rifjuðust upp góðar minningar frá fyrri tíð og meðal annarra æskuminningar úr sumarferðum Varðar sem ávallt voru mikið tilhlökkunarefni.
Ég ítreka fyrri yfirlýsingu mína þess efnis að ég mun standa við kjör mitt með framboði M-lista og sitja áfram sem fyrsti varamaður framboðsins í borgarstjórn Reykjavíkur til loka yfirstandandi kjörtímabils.“