„Áætlunin gerir ráð fyrir viðstöðulausri skuldasöfnun allt næsta kjörtímabil og er ljóst að reksturinn er engan veginn sjálfbær. Ýmislegt í rekstri samstæðu borgarinnar minnir á skuldsettan vogunarsjóð en afkoma borgarinnar byggir á afleiðum í áli og gjaldmiðlum, endurmati á félagslegu húsnæði og fjárfestinga í fyrirtækjum.“
Þetta sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, vegna afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 og fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022-2026.
„Í upphafi kjörtímabils voru heildarskuldir borgarinnar 299 milljarðar króna sem greiða átti niður samkvæmt sáttmála meirihlutans. Í dag eru skuldir borgarinnar komnar yfir 400 milljarða og fara vaxandi en ráðgert er að þær fari 450 milljarða 2025,“ segir Eyþór og bætir við: „Gera má ráð fyrir að upphæðin verði talsvert hærri enda vekur sérstaka athygli að ekki er gert ráð fyrir að Orkuveitan greiði skuld upp á meira en þrjá milljarða við Glitni þó dómur liggi fyrir um að það beri að gera. Þá er ekki gert ráð fyrir krónu í rekstur borgarlínu næstu fimm árin en ekkert er minnst á hvernig það samræmist góðri áætlanagerð og öðrum fyrirheitum.“
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til sölu á fyrirtækinu Ljósleiðaranum ehf. (áður Gagnaveita Reykjavíkur) og að söluandvirðið yrði nýtt til að lækka skuldir og fjármagnskostnað í samstæðu Reykjavíkurborgar. Einnig lögðu þeir til að Malbikunarstöðin Höfði yrði seld. Þá lögðu sjálfstæðismenn til að gera leigjendum Félagsbústaða mögulegt að eignast það húsnæði sem það leigir af Félagsbústöðum. Meirihluti borgarstjórnar felldi tillögurnar.
„Tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sölu eigna sem ekki tilheyra kjarnastarfssemi borgarinnar voru ekki samþykktar þrátt fyrir augljósa kosti þess að lækka skuldir og fara úr samkeppnisrekstri. Mikil fjölgun borgarstarfsmanna er ekki örvandi efnahagsaðgerð. Þvert á móti hefur stóraukinn kostnaður í rekstri borgarinnar leitt til þess að skuldir og skattar hafa hækkað úr hófi fram. Næsta vor verður kosið um hvort áfram verði haldið á þessari braut stækkandi bákns eins og það birtist í fimm ára áætlun vinstri meirihlutans í borginni,“ segir Eyþór.