PLAY flutti 16.689 farþega í nóvember og sætanýting var 58,3%, samanborið við 67,7% í október. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Þar kemur fram að þróunin í nóvember hafi verið mjög jákvæð þar til ný bylgja kórónuveirunnar skall á hér á landi og í Evrópu um miðjan mánuðinn. Sú bylgja hafði áhrif á eftirspurn eftir flugsætum. Miðað við síðustu bylgju hefur þó verið minna um að viðskiptavinir PLAY breyti ferðadagsetningu sinni eða afbóki ferð sína. Áhrif þessarar bylgju birtust helst í bókunum til skemmri tíma þar sem viðskiptavinir bókuðu helgarferðir með stuttum fyrirvara í mun minna mæli en áður, sem hafði nokkur áhrif á sætanýtingu í mánuðinum. Á sama tíma hefur bókunarstaða til lengri tíma verið sterk.
Nóvember er annar besti mánuður PLAY í sætanýtingu frá upphafi rekstrar en hún var einungis hærri í október. Miðað við mjög krefjandi umhverfi á tímum heimsfaraldurs og þá staðreynd að eftirspurn eftir flugferðum er almennt minni í nóvember verður staðan að teljast nokkuð góð. Með hærra hlutfalli bólusettra á mörkuðum PLAY ríkir nokkur bjartsýni með næstu mánuði þó að óvissunni um stöðu faraldursins sé ekki lokið. Félagið er vel í stakk búið til að takast á við sveiflur í eftirspurn enda sterkt fjárhagslega með sterka fjárhagsstöðu, mikið haldbært fé, lægri rekstrarkostnað en áætlanir gerðu ráð fyrir og engar vaxtaberandi skuldir. PLAY hefur þannig mikinn styrk og sveigjanleika til að halda áfram að vaxa.
Tuttugu og þrír áfangastaðir í Evrópu
Í nóvember bætti PLAY fjórum áfangastöðum í Evrópu við áætlun sína næsta sumar, Lissabon í Portúgal, Prag í Tékklandi, Bologna á Ítalíu og Stuttgart í Þýskalandi. Þessum nýju áfangastöðum var tekið mjög vel og þá sérstaklega Portúgal, þar sem mikið var um bókanir eftir að áfangastaðurinn fór í sölu. Í desember bætti PLAY þremur áfangastöðum í Evrópu við áætlun sína fyrir næsta sumar, Dyflinn á Írlandi, Madríd á Spáni og Brussel í Belgíu. Með þessari viðbót við leiðakerfi PLAY eru áfangastaðir félagsins í Evrópu orðnir 23 talsins. Þá mun PLAY hefja áætlunarflug til austurstrandar Bandaríkjanna næsta vor.
„Sætanýtingin í nóvember var vel ásættanleg með tilliti til neikvæðra áhrifa kórónuveirufaraldursins og nýja ómíkrón afbrigðisins sem skapar óvissu til skamms tíma. Auk þess er nóvember alla jafna erfiður mánuður í flugrekstri. Það er því hvetjandi að sjá að nóvember er okkar næst besti mánuður það sem af er ári með hliðsjón af nýtingu okkar. Það sem gefur einnig tilefni til bjartsýni er hve stöðugur vöxtur er í bókunum hjá okkur eftir því sem vörumerki okkar verður þekktara á mörkuðum PLAY. Það vegur upp á móti sveiflum á íslenska markaðinum. Við vinnum að fjölgun áfangastaða okkar næsta vor en stóra verkefnið er viðbót nokkurra borga í Norður Ameríku við leiðarkerfi okkar sem kynnt verður á næstunni. Með því að breyta yfir í tengiflugsleiðakerfi (e. hub-and-spoke) aukum við aðgengi að farþegum og tekjum sem styrkir undirstöður okkar og ver okkur gagnvart sveiflum á hinum kvika íslenska markaði. Nýjustu vendingar í kórónuveirufaraldrinum hafa engin áhrif á langtímaáætlanir okkar og ég er mjög ánægður með frammistöðu fyrirtækisins og hlýlegar viðtökur viðskiptavina okkar. Ég fylgist stoltur með metnaði og fagmennsku samstarfsfólks míns hjá PLAY og er mjög bjartsýnn á framhaldið,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.