Undanfarið hefur borið nokkuð á því að viðskiptavinir verslana komi illa fram við starfsfólk. DV greindi frá því í gærkvöldi að 16 ára starfsmaður í einum af stórmörkuðum Reykjavíkur hafi verið gráti næst vegna framkomu pirraðra, önugra og yfirlætislega viðskiptavina.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir það ekki á starfsmenn verslana bætandi eftir ástandið í heimsfaraldrinum að viðskiptavinir taki út skap sitt á þeim. Hann skrifar um málið á Facebook:
„Enn og aftur hefur borið á slæmri framkomu viðskiptavina í garð afgreiðslufólks í verslun.
Síðustu misseri hafa verið afgreiðslufólki afar erfið og krefjandi á tímum heimsfaraldursins. Það er í raun óskiljanlegt hversu lítið tillit hefur verið tekið til mikilvægi framlínustarfa eins og í verslun.
Það er varla hægt að gera sér í hugarlund hvernig staðan hefði verið ef almenningur hefði ekki haft nær óheftan aðgang að nauðsynjavöru og annarri þjónustu.“
Ragnar bendir á að álag á starfsfólk hafi verið mikið vegna aukningar á veltu og mun þetta álag ná hámarki á næstunni í tengslum við jólin.
„Álag hefur aukist mikið á starfsfólk vegna mikillar aukningar á veltu sem nær svo hámarki í aðdraganda stórhátíða. Ef það er ekki nóg þá þarf verslunarfólk alla jafna að bera grímu og vera í hönskum meira og minna á vinnutíma.“
Það sé því ekki á það bætandi að viðskiptavinir taki út gremju sína á starfsfólki sem eigi það ekki skilið.
„Það er ekki ábætandi að viðskotaillir viðskiptavinir taki togstreitu og pirring dagsins með sér út í búð og láti það bitna á starfsfólki verslana, sem síst eiga það skilið. Tala nú ekki um gagnvart unga fólkinu okkar sem er að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði, viljum við að upplifun þeirra sé jákvæð og uppbyggileg.
Það vill engin sjá barnið sitt niðurbrotið eftir vinnudag vegna slæmrar framkomu viðskiptavina.
Það eru erfiðir tímar í okkar samfélagi. Tímar óvissu og takmarkana, sóttkvía og einangrunar. Þá er ennþá mikilvægara að standa saman með kærleika, virðingu og þakklæti að vopni.
Sýnum framlínufólki í verslun þá virðingu sem það á skilið. Þökkum því fyrir að standa vaktina og gegna þessu mikilvæga og ómissandi hlutverki í okkar samfélagi.“