The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að í skjölunum sé kallað eftir því af hálfu kommúnistastjórnarinnar að Úígúrar verði endurmenntaðir og fluttir til annarra svæða til að koma á jafnvægi á milli fjölda þeirra og Han Kínverja í Xinjiang.
Zenz segir að skjölin séu mjög mikilvæg því þau sýni margar tengingar á milli æðstu leiðtoga Kína árið 2014 og þess sem hefur gerst í Xinjiang. Þar hafa múslimar verið sendir í fangabúðir, sem kínversk stjórnvöld segja vera endurmenntunarbúðir, þeir hafa verið látnir vinna þrælkunarvinnu og einnig hafa borist fregnir af ófrjósemisaðgerðum á þeim.
Zenz segir að skjölin sýni langtímafyrirætlun ráðamanna um að fremja menningarlegt þjóðarmorð til að tryggja yfirráð kommúnistaflokksins.
Uyghur Tribunal, sem er óháður dómstóll staðsettur á Bretlandi, fékk gögnin í september en þau hafa ekki verið birt í heild til að vernda uppljóstrarann.