Þetta hefur Morgunblaðið eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttur, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að efla eigi alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis. Markmiðið sé að styðja enn frekar við þessa grein með hærri endurgreiðslum á skýrt afmörkuðum þáttum.
Í aðdraganda þingkosninganna boðaði Framsóknarflokkurinn að endurgreiðslur vegna kostnaðar sem fellur til við kvikmyndagerð yrði hækkaður en kvikmyndagerðarmenn hafa lengi kallað eftir hækkun á þessum endurgreiðslum. Nú er endurgreiðsluprósentan 25% en kvikmyndagerðarmenn hafa viljað sjá hana fara í 35% til að geta keppt við ríki eins og Írland en Írar fengu Game of Thrones í sinn hlut vegna endurgreiðsluhlutfallsins þar í landi.
Lilja vildi ekki staðfesta hversu mikil hækkun verður á endurgreiðsluprósentunni en sagði að markmiðið væri skýrt: „Við erum að fara að keppa við Írland og Spán. Við gerum þetta til að keppa við þessi stóru lönd.“