Tómas Guðbjartsson, læknir og náttúruverndarsinni, furðar sig á því að Vinstri Grænir hafi samþykkt að fela Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, loftlags- og orkumál. Slíkt geti ekki farið saman og megi strax sjá það af viðtölum sem ráðherrann hefur veitt þennan rétt rúma sólarhring síðan tilkynnt var að hann tæki við málaflokkunum. Tómas ritar grein um þetta sem birtist hjá Vísi.
„Það hljóta allir að sjá að það er algjörlega út úr kú að sami ráðherra fari með umhverfis-/loftslagsmál og orkumál. Hagsmunir orkugeirans á Íslandi eru gríðarlegir og náttúran alltaf sett i annað sæti. Einfaldlega vegna þess að í orku- og stóriðjugeiranum liggja peningarnir – og lobbýismi staðalbúnaður.“
Tómas segir að hingað til hafi umhverfisráðherra þurft að gæta hagsmunum náttúrunnar gagnvart öðrum ráðherrum og ráðuneytum.
„Nýskipaður ráðherra er hins vegar þegar farinn að berja i bumbur með slagorðum eins og „orkuskipti“, „græn orka“ og „virkja meira – en varlega“ – slagorð sem eru meira umbúðir en innihald.“
Tómas segir að aðeins 3 prósent þeirrar orku sem framleidd sé á Íslandi þurfi í að rafvæða allan bílaflota Íslendinga, 80 prósent orkunnar fari hins vegar í annað – stóriðju og þá aðallega álver.
„Sem eru afar mengandi og hráefnið baxít flutt yfir hnöttinn til að bræða það hérlendis. Afurðin er síðan flutt aftur yfir hafið og notuð i hagkerfum sem sum nýta sér ekki einu sinni að endurnýta málminn.“
Nú hafi erlendir álframleiðendur lýst yfir vilja sínum til að fjárfesta hér á landi, bæði í ál- og kísilverum.
„Eru menn búnir að gleyma hótunum Rio Tinto í Straumsvík fyrir tveimur árum, þegar átti að leggja verksmiðjuna af? Hættan nú er sú að náttúruperlur verið færðar á færibandi undir fallöxi hagsmunaaðila.“
Tómas telur ljóst að Guðlaugur muni í þessum viðræðum sitja báðum megin borðsins og því í „kjöraðstöðu að „láta hlutina gerast“ og slíkt muni hann gera í nafni grænnar orku sem sé hins vegar allt annað en græn.
„Allt í nafni „grænnar orku“ – sem eftir allt er ekki svo græn – hvort sem hún kemur frá vinstri eða hægri – enda verið að rústa einstakri náttúru okkar, sem ólíkt græðgi, er takmörkuð auðlind. Að svona ráðuneyti skuli vera sett á koppinn á vakt VG er síðan ekkert annað en hneyksli.“