Flestir sérfræðingar eru sammála um að gjaldmiðilskreppan sé Erdogan að kenna því hann heldur því fram að háir vextir séu orsök þess efnahagsvanda sem Tyrkir glíma við.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Erdogan sendir gengi lírunnar í sannkallaða rútsíbanareið. Fyrir þremur árum höfðu ráðgjafar hans komið á hádegisverðarfundi hans og hóps áhrifamikilla fjárfesta í Lundúnum. Áður hafði tyrkneska seðlabankanum tekist að koma ró á efnahagsástandið í landinu með því að hækka vexti. Erdogan átti að róa fjárfestana og gera út af við síðustu áhyggjur þeirra. En þess í stað formælti hann vaxtahækkun seðlabankans í bak og fyrir og sáði efasemdum um sjálfstæði hans. Hann endurtók þetta síðan í viðtali við Bloomberg.
Á næstu tíu dögum féll gengi lírunnar og náði nýjum lægðum þegar greiða varð fimm lírur fyrir einn dollara en 2011 kostaði einn dollari 1,6 lírur. Nú er sagan að endurtaka sig.
Erdogan er búinn að reka þrjá seðlabankastjóra síðan 2019 en þeim varð það á að hækka vextir. Opinberlega eru seðlabankastjórarnir og seðlabankinn sjálfstæðir og óháðir ríkisstjórninni en sá seðlabankastjóri sem nú situr hlýðir öllum fyrirmælum Erdogan. Á síðustu þremur mánuðum hefur bankinn lækkað stýrivextina úr 19% í 15% þrátt fyrir að það hafi valdið gengisfalli lírunnar og komið verðbólgunni upp í tæplega 20%.
En það virðist ekki hræða Erdogan og á mánudaginn lofaði hann „með guðs hjálp“ að vinna „stríðið um efnahagslegt sjálfstæði“ gegn erlendum árásarmönnum sem hann hefur lengi sakað um að standa á bak við efnahagsvandann. Boðskapur hans sendi gengi lírunnar enn lengra niður. Frá áramótum hefur gengi hennar lækkað um 40% og helmingurinn af þeirri lækkun átti sér stað síðust sjö daga. Nú kostar einn dollari um 12 lírur.