PLAY hefur undirritað samning við alþjóðlega flugvélaleigusalann China Aircraft Leasing Company (CALC) um leigu á tveimur A320neo flugvélum. Vélarnar verða afhentar PLAY í næstu viku og verða í kjölfarið málaðar og aðlagaðar að þörfum félagsins. Þær eru væntanlegar til landsins í Mars 2022 áður en félagið hefur flug til Norður Ameríku. Vélarnar eru nýjar og verða afhentar beint frá framleiðandanum Airbus. Þessar ráðstafanir stækka flota PLAY úr þremur flugvélum í fimm fyrir sumarið 2022.
Sjá einnig: PLAY kynnir fjóra nýja áfangastaði: Tékkland, Þýskaland, Ítalía og Portúgal
PLAY hafði áður greint frá undirritun viljayfirlýsingar við CALC í ágúst.
Í september undirritaði PLAY samning við alþjóðlega flugvélaleigusalann GECAS um leigu á þremur A320neo flugvélum og einni A321NX flugvél. Vélarnar verða afhentar frá hausti 2022 til vors 2023.
Með þessum samningum hefur PLAY tryggt hagstæð kjör í samræmi við núverandi markaðsaðstæður. Samningarnir eru til langs tíma og vélarnar eru hagkvæmar í rekstri.
Airbus A320 fjölskyldan hentar rekstri PLAY sérstaklega vel. Stærð og drægni vélanna gera PLAY kleift að þjónusta stærri og minni markaði, nær og fjær. Þær eru sparneytnar á eldsneyti og þekking áhafna PLAY á þessum vélum er þegar til staðar sem einfaldar reksturinn.
„Við erum mjög ánægð með að bæta vélum í flotann. Við erum meðvitað að taka ákvarðanir með umhverfissjónarmið í huga og er val á þessum flugvélum til marks um það,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.