fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Eyjan

Úrslit sveitarstjórnarkosninganna í Danmörku eru þungt högg fyrir jafnaðarmenn

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 17. nóvember 2021 05:59

Mette sjálf mun ekki mæta fyrir dóminn. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Niðurstöður liggja nú fyrir í sveitarstjórnarkosningunum sem fóru fram í Danmörku í gær. Úrslitin eru þungt högg fyrir jafnaðarmenn og munu gera Mette Frederiksen, forsætisráðherra minnihlutastjórnar jafnaðarmanna, erfitt fyrir fram að næstu þingkosningum.

Eins og oft er í sveitarstjórnarkosningum þá skiptir frammistaða flokkanna í landsmálum ekki öllu máli en þó töluverðu. Í sumum sveitarfélögum virðist hún nánast ekki skipta neinu máli, kjósendur eru vanafastir og styðja sinn flokk hvað sem á dynur og persónufylgi sumra stjórnmálamanna mælist mikið. Í öðrum sveitarfélögum koma landsmálin við sögu og hafa áhrif og það gerðist í gær.

Jafnaðarmenn fengu skell í stóru borgunum og bæjunum. Ekki er langt síðan að þeir og Frederiksen nutu mikils fylgis í skoðanakönnunum því kjósendur voru ánægðir með aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins. Allt stefndi í að úrslitin í sveitarstjórnarkosningunum og næstu þingkosningum yrðu bestu kosningaúrslit jafnaðarmanna árum saman.

En síðan kom minkamálið umtalaða upp. Það snýst í stuttu máli um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að láta lóga öllum minkum í minkabúum landsins vegna hættu á að kórónuveira bærist í dýrin og myndi stökkbreytast og berast aftur í fólk og gera faraldurinn enn hættulegri. Síðan í sumar hefur verið deilt um lögmæti þessarar ákvörðunar og má segja að jafnaðarmenn hafi laskast mjög við þetta mál. Ekki hefur dregið úr vandræðagangi þeirra að Frederiksen og ráðgjafar hennar voru með síma sína þannig stillta að þeir eyddu öllum smáskilaboðum sjálfkrafa eftir ákveðinn dagafjölda. Þannig hefur ekki tekist að afla gagna um hvað þeim fór nákvæmlega á milli í aðdraganda ákvörðunarinnar. Sérstök rannsóknarnefnd á vegum þingsins er að rannsaka minkamálið og vill gjarnan fá þessi smáskilaboð. Smáskilaboðamálið hefur valdið Frederiksen miklu tjóni og skilaði sér eflaust út í niðurstöður kosninganna í gær.

Á landsvísu tapaði flokkurinn tæplega 4 prósentustigum og fékk tæplega 30% atkvæða. Í borgunum var höggið enn þyngra og í Kaupmannahöfn var útreiðin mjög slæm en flokkurinn tapaði 10 prósentustigum og er ekki lengur stærsti flokkurinn í borgarstjórn og er það í fyrsta sinn í rúmlega 100 ár sem hann er ekki stærsti flokkurinn. Útreiðina í Kaupmannahöfn má einnig skýra með máli Frank Jensen, fyrrum borgarstjóra, sem neyddist til að segja af sér á kjörtímabilinu í kjölfar fjölda ásakana um kynferðisbrot gegn konum.

Í Árósum tapaði flokkurinn 9 prósentustigum og 10 prósentustigum í Óðinsvéum. Í heimabæ Frederiksen, Álaborg, tapaði flokkurinn tæplega 12 prósentustigum.

Úrslitin í borgunum má einnig rekja til þess að ríkisstjórn Frederiksen hefur lagt mikla áherslu á dreifðari byggðir landsins og litlu bæina. Með því hefur jafnaðarmannaflokkurinn fjarlægst borgarbúana þar sem tilhneigingin er að þeir verði sífellt meira vinstrisinnaðir og umhverfissinnaðir.

Nú þurfa jafnaðarmenn að leggjast undir feld og komast að niðurstöðu um hvaða taktík þeir hyggjast beita fram að næstu þingkosningum, sem verða í síðasta lagi eftir um 18 mánuði, ef þeir ætla að halda völdum.

Af árangri annarra flokka ber einna hæst að Íhaldsflokkurinn (De Konservative) fékk rúmlega 15% atkvæða á landsvísu en fékk 9% í kosningunum 2017. Flokkurinn er nú stærsti borgaralegi flokkurinn í þremur stærstu borgunum. Árangur flokksins er mikill sigur fyrir Søren Pape Poulsen, formann, sem nýtur mikils persónufylgis. Niðurstaðan styrkir enn stöðu hans þegar kemur að þingkosningum og möguleikum hans á að geta gert tilkall til forsætisráðherrastólsins.

Venstre, sem er stærsti borgaralegi flokkurinn á landsvísu, tapaði 1,9 prósentustigum og má líklega vel við una. Flokkurinn hefur verið í miklu basli síðustu misserin vegna innanflokksátaka og þá hefur formaður hans, Jakob Ellemann, ekki náð að heilla kjósendur.

Danski þjóðarflokkurinn fékk skell í kosningunum, þeim fjórðu í röð, en hann tapaði rúmlega helmingi þess fylgis sem hann fékk í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Úrslitin voru enn verri en flokksmenn höfðu gert ráð fyrir í svörtustu spám sínum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“