Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Hefur blaðið eftir heimildarmönnum að mestu muni skipta, varðandi endanlega útgáfu stjórnarsáttmálans, hver niðurstaðan verði varðandi verkefnatilflutning og skipan ráðuneyta en þau mál eru enn til umræðu.
Ein mestu tíðindin eru að sögn að til stendur að endurskoða lögin í kringum rammaáætlun en það mun væntanlega taka langan tíma.
Blaðið segir að til standi að mynda nýtt innviðaráðuneyti sem Sigurður Ingi Jóhannsson muni væntanlega fá í sinn hlut. Í því verða verkefni samgönguráðuneytisins, húsnæðis- og mannvirkjamál og skipulagsmál. Einnig hefur verið rætt um að setja þekkingarráðuneyti á laggirnar þar sem málefni vísinda, menningar og nýsköpunar verði.
Einnig hefur að sögn verið rætt um að endurreisa viðskiptaráðuneytið og undir það falli allur fjármálageirinn, samkeppnis- og neytendamál og félagaréttur.
Blaðið segir að enn liggi ekki fyrir hvernig ráðuneytunum verði skipt á milli flokkanna og ekki hverjir verða ráðherrar. Þó liggi fyrir að tveir nýir ráðherrar taki sæti í stjórninni og eru Guðrún Hafsteinsdóttir, Sjálfstæðisflokki, og Willum Þór Þórsson, Framsóknarflokki, sögð líklegust til að setjast í þessi sæti.
Morgunblaðið segir að formenn stjórnarflokkanna gangi út frá því að verulegar breytingar verði gerðar á sætaskipan við ríkisstjórnarborðið en að litlar breytingar verði gerðar á ráðherraliðinu.