Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Segir blaðið að forystumenn flokkanna hafa sagt í sínum hópi að stjórnarmyndunin sé „að smella saman“. Að öðru leyti hafa þeir ekki farið neitt út í smáatriði um viðræðurnar eða hvernig væntanlegur stjórnarsáttmáli mun líta út.
Hefur blaðið eftir stjórnarþingmanni að ekki þurfi að búast við stórkostlegum pólitískum tíðindum í sáttmálanum. Meginverkefnið verið að koma landinu klakklaust út úr heimsfaraldrinum, byggja efnahagslífið upp og koma lagi á ríkisfjármálin.
Skammur tími er til stefnu til að ljúka stjórnarmyndunarviðræðunum því kalla þarf Alþingi saman í síðasta lagi 4. desember samkvæmt lögum en þá er sá tími liðinn sem má líða frá kosningum þar til þing er kallað saman. Þá er hefð fyrir að fjármálaráðherra leggi fjárlagafrumvarpið fram á þingsetningardegi og stjórnarflokkarnir þurfa að ná saman um skipan í nefndir þingsins en það þarf að einhverju leyti að gerast í samvinnu við stjórnarandstöðuna.
Þá er talið mikilvægt að málin hafi skýrst hvað varðar framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi svo ekki leiki vafi á hvernig þingið verður skipað á næsta kjörtímabili.