fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Hanna Katrín spyr hvort nýr stjórnarsáttmáli snúist um auðsöfnun og vaxandi ítök stórútgerðarinnar

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 15. nóvember 2021 06:55

Hanna Katrín Friðriksson Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, skrifar grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni: „Stjórnarsátt um auðsöfnun?“.  Í greininni bendir hún á að stærstu útgerðarfélög landsins eigi hlut í mörg hundruð fyrirtækjum sem starfa ekki í sjávarútvegi og vitnar þar í úttekt Stundarinnar. Tilefni úttektar Stundarinnar er skýrslubeiðni Hönnu Katrínar frá því fyrir tæpu ári síðan þar sem hún óskaði eftir skýrslu frá sjávarútvegsráðherra um eignarhald 20 stærstu útgerðarfyrirtækja landsins í íslensku atvinnulífi.

„Tæpur þriðjungur þingheims stóð með mér að skýrslubeiðninni sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í þingsal. Það dugði þó ekki til. Átta mánuðum síðar skilaði sjávarútvegsráðherra skýrslu sem var hvorki fugl né fiskur. Eingöngu voru birtar upplýsingar um hversu mikið útgerðirnar eiga í óskyldum rekstri en ekki hvar fjárfestingarnar liggja,“ segir Hanna Katrín og bætir við að sjávarútvegsráðherra hafi borið persónuverndarlög fyrir sig en því hafi Persónuvernd alfarið hafnað.

„Kvöldið fyrir þingkosningar mánuði síðar birti RÚV frétt um að listar yfir þau fyrirtæki, sem útgerðarfyrirtækin og tengd fyrirtæki höfðu fjárfest í, hefðu verið í þeim drögum að skýrslunni sem ríkisskattstjóri sendi ráðuneytinu. Þetta var í byrjun júlí eða um það leyti sem Alþingi fékk þær upplýsingar að skýrslan væri alveg að verða tilbúin. Í endanlegri skýrslu, sem kom loks nær tveimur mánuðum síðar, var búið að taka upplýsingarnar út,“ segir Hanna Katrín og segist vilja skýr svör um hver greip þarna inn í.

„Við búum sem betur fer við frjálsa fjölmiðlun. Óeðlilegt inngrip stjórnvalda í beiðni Alþingis hefur ekki komið í veg fyrir að fram hafa komið upplýsingar um beinan og óbeinan eignarhlut stærstu útgerðarfélaga landsins í hundruðum íslenskra fyrirtækja sem ekki starfa í sjávarútvegi. Þar má nefna fjármálafyrirtæki, fasteignafélög, tryggingafélög, skipafélög, fjölmiðla, orkufyrirtæki, heildsölur og smásölur, fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, ferðaþjónustu, veitingastaði o.fl. En hvað gengur stjórnvöldum til? Af hverju þessi leynd? Það má ekki tala um þetta af því að íslenskur sjávarútvegur er svo smár í alþjóðlegum samanburði? Það kemur kjarna málsins jafn lítið við og það að íslenskur sjávarútvegur er vel rekinn og skapar verðmæti fyrir þjóðfélagið,“ segir hún og bætir við að eftir standi spurningin um hvernig þetta tengist gagnrýni á síaukin ítök stórútgerðarinnar í íslensku atvinnulífi? Þessi ítök séu tilkomin vegna gríðarlegs samansafnaðs auðs sem er tilkominn vegna ótímabundins réttar á nýtingu sjávarauðlindarinnar.

„Hvernig stendur á því að stjórnvöld leggja áherslu á að halda upplýsingum um þau ítök frá þinginu og frá íslenskum almenningi? Munu hinar breiður strokur nýs stjórnarsáttamála (sic) Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fela í sér breytingar hér eða er áframhaldandi stjórnarsátt um vaxandi ítök stórútgerðarinnar í íslensku samfélagi í kyrrþey?“ Spyr hún síðan að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt