fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar – Rammvilltir flokkar

Eyjan
Sunnudaginn 14. nóvember 2021 16:15

Jónas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Jonas Gahr Støre myndaði minnihlutastjórn Verkmannaflokksins og Miðflokksins á dögunum gerðist það í fyrsta skiptið síðan 2001 að sósíaldemókratar eru við völd í öllum norrænu ríkjunum (að Íslandi undanskildu). Að auki má telja yfirgnæfandi líkur á að Olaf Scholz, kanslaraefni þýskra sósíaldemókrata, flytji skrifstofu sína brátt í kanslarahöllina. Þá halda sósíaldemókratar einnig um stjórnartaumana í Madrid og Lissabon. Þýska vikuritið Spiegel fjallaði á dögunum um „endurkomu“ sósíaldemókratanna — en lengst af þessari öld hafa flokkar þeirra átt í verulegum vanda víðast hvar í álfunni.

Hvers vegna eru sósíaldemókratar að sækja í sig veðrið?

Spiegel átti samtal við Jonas Gahr Støre og innti hann eftir ástæðum þessa (sjá 44. tbl., bls. 81). Hann sagði evrópska sósíaldemókrata vera á leið til upprunans og leggi nú aftur megináherslu á að vera talsmenn hinna vinnandi stétta. Þeir vilji berjast fyrir sanngjarnri skiptingu verðmæta og nútímalegu velferðarkerfi og minnti Støre á að velferðarkerfið væri evrópsk uppfinning og sósíaldemókratar hefðu haft afgerandi áhrif á mótun þess. (Þó er rétt að halda því til haga að járnkanslarinn Otto von Bismarck telst upphafsmaður almannatrygginga).

Blaðamaður Spiegel spurði eðlilega í framhaldi af þessu hvort sósíaldemókratísku flokkarnir hefðu villst af leið um hríð. Støre fór fínt að svara spurningunni en nefndi að alltént hefði stór hluti almennings talið að þessir flokkar hefðu ekki hlúð nægilega að sínum grunngildum sem væru félagslegt réttlæti og öryggi, og jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu og menntun. Á tímum farsóttarinnar hefðu sósíaldemókratísku flokkarnir aftur öðlast trúverðugleika hvað þessa þætti varðar. Og aðspurður um „das nordische Modell“ nefndi Støre að mikilvægt væri að tryggja félagslegan jöfnuð því ójöfnuður skaðaði efnahagslífið en þetta væri kjarni hins norræna velferðarríkis.

Samfylkingin hefur hrakist af leið

Fyrir nokkrum árum komu út endurminningar Guðmundar H. Garðarssonar sem undirritaður skráði en Guðmundur var meðal annars fulltrúi ASÍ á þingum Alþýðusambands Vestur-Evrópu (e. Confédération européenne des syndicats) á áttunda áratugnum. Yfirgnæfandi meirihluti forystumanna verkalýðshreyfingar lýðræðisríkja álfunnar voru sósíaldemókratar á þeim árum, einn og einn kom frá flokkum kristilegra og svo voru nokkrir kommúnistar frá Ítalíu og Frakklandi, en Guðmundur var formaður VR 1957–1980 og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins um skeið. Grípum niður í frásögn hans:

„Við náðum ágætlega saman í þessum samtökum og Íslendingum var sýndur skilningur. Ég var bara hafður með krötunum. Ef til vill fannst þeim ekkert að óttast, Íslendingar ekki nema 200 þúsund manns. Síðan gerist það að einræðisstjórninni er steypt af stóli í Portúgal og um svipað leyti var miðstjórnarfundur haldinn í Brussel. Eitt kvöldið er ég að borða með krötunum og þar er spjallað um margt. Síðan kom að stóra málinu: Það þarf að aðstoða „bræðraflokkinn“ í Portúgal. Þarna birtist gamla „bræðralagshugsjón“ kratanna. Ég lagði ekkert til málanna bara sat og hlustaði. Niðurstaða umræðnanna varð sú að koma þyrfti pening til „bræðraflokksins“ í Portúgal og verkalýðshreyfingarinnar þar í landi. Styðja „okkar menn“ í Portúgal, eins og þeir orðuðu það og þetta voru engar smá upphæðir. Svo segir einn: „Bræðraflokkurinn í Vestur-Þýskalandi sér til þess að peningarnir komist á réttan stað.“ Hvernig áttum við litla íhaldið á Íslandi að keppa við félagsauðvald verkalýðshreyfingarinnar í Efnahagsbandalagi Evrópu? Það var auðvitað vonlaust mál. Þá uppgötvaði maður að þarna á milli var samgangur og peningar fóru milli landa til að styrkja pólitíska flokka.“

Alþýðuflokkurinn hafði fyrr á tíð góð tengsl við sósíaldemókrataflokka álfunnar en arftakinn — Samfylkingin — er á ýmsan hátt á skjön við „systurflokkana“. Þó ekki væri nema hvað fylgi varðar en Samfylkingin fékk aðeins 8,8% atkvæða á landsvísu í nýliðnum alþingiskosningum og lægst fór hún í 5,7% 2016. Norski Verkamannaflokkurinn hlaut 26,3% í kosningum til Stórþingsins fyrr í haust og þýskir sósíaldemókratar bættu við sig 53 sætum á Sambandsþinginu í Berlín í kosningunum í september en fylgi þeirra var 25,7% á landsvísu.

Íslenski sósíaldemókrataflokkurinn er því á allt öðrum og verri stað en auðveldlega má greina hvernig Samfylkingin hefur hrakist af leið því flokkarnir í nágrannalöndunum eru allir bandamenn atvinnulífs þrátt fyrir að vera verkalýðs- og velferðarflokkar. Raunar verður heldur ekki séð að Samfylkingin hafi nokkur tengsl að ráði við verkalýðshreyfinguna lengur. Fyrir ekki svo mörgum árum hefði mátt nefna ótal foringja stéttarfélaga sem voru kunnir samfylkingarmenn en varla nokkur kemur upp í hugann lengur.

Fleiri glíma við áþekkan vanda

En á einum stað virðist hinn annars ólánssami flokkur halda velli og það er í borgarstjórn Reykjavíkur. Samfylkingin hlaut ríflega fjórðungsfylgi í kosningunum 2018. Afar sjaldan eru birtar kannanir á fylgi flokka til bæjarstjórna en Fréttablaðið greindi frá könnun Gallups í mars síðastliðnum sem sýndi að Samfylkingin hlyti 26,4% atkvæða ef kosið hefði verið til borgarstjórnar þá. Erfitt er að draga miklar ályktanir út frá einni könnun en sannarlega athyglisvert að flokkurinn skuli bæta við sig fylgi í ljósi síendurtekinna hneykslismála, hvort sem það tengist skólpi á baðströndinni í Nauthólsvík, kaupum á dönskum puntstráum fyrir 757 þúsund krónur eða uppsetningu fuglahúsa á Hofsvallagötu.

Raunar er sama hvar borið er niður í borginni, alls staðar kraumar reiði vegna stefnu og starfa borgarstjórnar. Samt heldur meirihlutinn sínu fylgi. Helsta skýringin á þessu hlýtur að felast í gagnslitlum og ótrúverðugum minnihluta. Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna hefur verið afar máttlaus um langa hríð (svo vægt sé til orða tekið) en segja má að keyrt hafi um þverbak á núverandi kjörtímabili. Kjörnefnd flokksins ákvað fyrir tæpum fjórum árum að stilla upp á lista hópi óþekkts fólks sem er jafnóþekkt nú undir lok kjörtímabilsins ef Hildur Björnsdóttir er kannski undanskilin (og ef til vill verður hún helsta vonarstjarna flokksins á ári komanda).

Vandi Sjálfstæðisflokksins er nefnilega áþekkur raunum Samfylkingar: báðir flokkarnir hafa villst af leið. Misst sjónar á grunngildum sínum svo lítið fer fyrir hugmyndafræðilegri festu. Ráðvilltir kjósendur leituðu því á önnur mið í síðustu alþingiskosningum og merktu jafnvel við eitthvað sem skilgreina mætti sem illskástan kost að þeirra mati. Áróðursmeistarar Framsóknarflokks skynjuðu þetta glögglega og kölluðu til hinna villuráfandi sauða með áhrifaríkum hætti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Moyes aftur til Everton
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
08.12.2024

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum
EyjanFastir pennar
29.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel
EyjanFastir pennar
28.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka