Í sýslum þar sem að minnsta kosti 60% kusu Donald Trump var dánartíðnin í október 25 á hverja 100.000 íbúa. Í sýslum þar sem að minnsta kosti 60% kusu Joe Biden var dánartíðnin 7,8 á hverja 100.000 íbúa. Það eru sem sagt þrisvar sinnum meiri líkur á að deyja af völdum COVID-19 í „Trumplandi“ miðað við í „Bidenlandi“.
Þegar faraldurinn skall fyrst á Bandaríkjunum var myndin önnur. Þá voru það New York og New Jersey sem voru í verstu stöðunni en í mars og apríl á síðasta ári var rúmlega helmingur smitanna í landinu í þessum tveimur ríkjum. Í þessum ríkjum sigraði Biden með 23 og 16 prósentustiga mun.
Nokkrum mánuðum eftir að veiran barst til Bandaríkjanna fór hún að breiðast út um landið af meiri krafti og fjöldi smita í Suðurríkjunum og Miðvesturríkjunum fór vaxandi en í þeim ríkjum njóta Repúblikanar mikils stuðnings. Í desember höfðu hlutföllin jafnast út og dánartíðnin var mjög jöfn um öll Bandaríkin.
Síðan komu bóluefnin og Bandaríkin voru í fararbroddi við að hefja bólusetningar. Leiðtogar Demókrata voru fljótir að fylkja sér á bak við bóluefnin og mæla með þeim en margir áhrifamenn í Repúblikanaflokknum voru efins og létu efasemdir sínar í ljós. Þetta varð til þess að mikill munur varð á hversu margir létu bólusetja sig. Tölur frá Our World in Data sýna að hlutfall bólusettra er 30-40% hærra í ríkjum sem Biden sigraði í en þar sem Trump sigraði. Þetta hefur haft í för með sér að faraldurinn hefur lagst þyngra á ríki þar sem Trump nýtur mikils stuðnings. Þessi þróun hefur haldið áfram og október er sá mánuður þar sem munurinn hefur verið mestur til þessa.
Í heildina er dánartíðnin af völdum COVID-19 hæst í Bandaríkjunum af löndunum í Norður-Ameríku og ef borið er saman við Vestur-Evrópu.
Á síðustu tveimur vikum hefur hættan á að deyja af völdum COVID-19 verið rúmlega fimm sinnum meiri í Bandarikjunum en í löndum á borð við Spán, Frakkland og Ítalíu.