Ísland hafnar í efsta sæti í alþjóðlegum samanburði bandaríska ráðgjafarfyrirtækisins Mercer og samtakanna CFA Institute á lífeyriskerfum 43 ríkja víða um heim samkvæmt fréttatilkynningu frá ASÍ.
Á samanburðalistanum er ekki aðeins fjallað um styrkleika kerfanna heldur einnig bent á veikleika þeirra og hvernig mætti ná enn betri árangri. Þegar lífeyriskerfin í löndunum 43 voru borin saman var einkum horft til þriggja þátta.
Þegar mat Mercer og CFA Institute á íslenska kerfinu er skoðað vegur þyngst að lífeyrir almannatrygginga þykir hér tiltölulega ríflegur, samtryggingakerfi lífeyrissjóða með vinnumarkaðstengdri þáttökuskyldu tryggir góðan sparnað og kerfinu er vel stýrt og regluverkið er skýrt.
Mercer og CFA Institute settu íslenska kerfið í 1. sæti yfir nægjanleika, 1. sæti þegar litið var til sjálfbærni og í 7. sæti yfir traust. Eins og fyrr segir varð þetta mat ráðgjafafyrirtækisins og CFA til þess að Ísland lenti í toppsætinu yfir bestu lífeyriskerfin. Í næstu sætum komu hollenska og danska kerfið.
Í skýrslu Mercer og CFA Institute er bent á tækifæri til að gera enn betur á Íslandi. Er það sérstaklega nefnt að bæta megi upplýsingaflæði til ungs fólks sem er að koma inn sem nýir sjóðsfélagar. Það vantar upp á ávinnslu lífeyrisréttinda fyrir foreldra sem eru utan vinnumarkaðar vegna umönnunar barna, ekki sé nægjanlega tekið tillit til áunnina lífeyrisréttinda í eignaskiptum við hjónaskilnað og að það vanti traustari ákvæði í regluverk sem skyldi lífeyrissjóði til að gæta að sjálfbærniþáttum í fjárfestingum. Það eru því augljós sóknarfæri þrátt fyrir glæsilega útkomu í þessari alþjóðlegu samanburðarrannsókn.