Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Segir blaðið að stjórnarþingmenn, sem það ræddi við, séu ekki mjög áhyggjufullir og segi engar líkur á að viðræðurnar fari út um þúfur. En líklega hafi of miklum tíma verið eytt í að ræða nokkur ágreiningsefni sem ekki sé hægt að leysa á nokkrum dögum eða vikum. Þetta eru mál á borð við landvernd og orkunýtingu.
„Þar þurfa flokkarnir einfaldlega að treysta hver öðrum til þess að geta unnið úr þeim málum á kjörtímabilinu. Þetta eru ólíkir flokkar og nokkur bjartsýni að þeir gætu leyst öll erfiðu málin fyrir fram,“ er haft eftir einum stjórnarliða.
Blaðið segir að heimildir séu fyrir að löng drög að stjórnarsáttmála liggi fyrir en líklega verði styttir sáttmáli kynntur til sögunnar, ekki verði of mikið um smáatriði í honum.