Hann sagði að í ljósi þess að Ortega hefði rutt öllum trúverðugum andstæðingum úr vegi væri ljóst að kosningarnar hefðu ekki verið frjálsar og sanngjarnar.
Allt frá því að mörg hundruð þúsund manns mótmæltu stjórn Ortega 2018 hefur stjórn hans gengið fram af mikilli hörku gagnvart mótmælendum. Borrell sagði að þetta þýði að fólk hverfi, deyi, sé fangelsað og misþyrmt. Níkaragva hafi breyst í „lýðveldi óttans“. Kosningarnar á laugardaginn hafi fullkomnað skiptin yfir í einræðisstjórn í landinu.
„Almenningur hefur verið sviptur tjáningarfrelsi, félagafrelsi og fundafrelsi. Það er þaggað niður í stjórnarandstöðunni, starfsemi margra samtaka hefur verið bönnuð og ekkert lét er á kúgun yfirvalda gagnvart almenningi,“ sagði hann.
Samkvæmt niðurstöðum kosninganna þá hlutu Ortega og eiginkona hans, Rosario Murilllo, sem er jafnframt varaforseti, 75% greiddra atkvæða.
Alþjóðasamfélagið hefur gagnrýnt framkvæmd kosninganna harðlega og þá sérstaklega vegna þess að sjö manns, sem hugðust bjóða sig fram gegn Ortega, hafa setið í fangelsi síðan í júní. Aðrir pólitískir andstæðingar forsetans hafa endað í fangelsi eða verið neyddir til að fara í útlegð.