Hann sagði að valdajafnvægið í heiminum væri að breytast, ekki síst vegna þess hversu mikið Kínverjar séu að styrkja sig á hernaðarsviðinu. „Við sjáum þá í Afríku, á norðurheimskautasvæðinu, og við sjáum Kína reyna að ná stjórn á mikilvægum innviðum í Evrópu,“ sagði hann á fréttamannafundi í danska utanríkisráðuneytinu i gær.
Hann sagði að ógnirnar, sem steðja að Vesturlöndum, fari vaxandi. Einræðisstjórnir eflist í sífellu og láti meira að sér kveða.
Hann sagði að ógnirnar séu meðal annars í netheimum og að Kínverjar hafi sett mikið fé í þróun nýrra vopna.
Hann sagði samstarfið við Rússa einnig vera erfitt því landið sé sífellt að troða á nágrannaríkjum sínum og að samband NATO við Rússa hafi ekki verið eins slæmt og það er nú frá lokum kalda stríðsins.