Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, rekur nú herferðina „Geyma eða gleyma?“ á vefsíðu sinni um þessar mundir. Gefur Hildur þar áhugasömum tækifæri á að kjósa á milli hinna ýmsu hugmynda, sumar gamlar og aðrar nýjar og ferskar. Herferðin fór af stað í lok október og uppfærast spurningarnar á nokkurra daga fresti.
Á meðal hugmynda sem Hildur hefur spurt um fram að þessu er heilsuefling eldri borgara, að byggja upp menningarstarfsemi úti í Viðey, að byggja upp íbúðabyggð á Granda þar sem þegar er mikið verslunar, og veitingastarfsemi rekin, að koma grunnskólakerfi Reykjavíkur í hóp 10 bestu í heimi, að breyta gamla Landsbankahúsinu í innanhússundlaug, daggæslu á stórum vinnustöðum og að reisa styttu af Hallveigu Fróðadóttur, fyrstu landnámskonunni á Arnarhóli.
Þá spurði Hildur jafnframt nýlega um hvort hleypa ætti lífi í olíutankana úti í Örfirisey, og þá jafnvel með því að opna þar næturklúbb.
Hægt er að kjósa á milli þess að „geyma“ eða „gleyma“ hugmyndunum sem Hildur leggur fram inni á heimasíðu hennar, www.hildurbjornsdottir.is.