Sólveig Anna Jónsdóttir hefur tilkynnt stjórn Eflingar um afsögn sína sem formaður félagsins. Afsögnin kemur í kjölfar vantraustyfirlýsingar frá starfsfólki félagsins. Hún greinir frá þessu í opinni Facebookfærslu á ellefta tímanum í kvöld.
Sólveig Anna segir að starfsfólk hafi í sumar sakað hana um að halda úti svokölluðum „aftökulista“ og að hafa framið grafalvarleg kjarasamningsbrot gegn starfsfólki á borð við fyrirvaralausar uppsagnir. Auk þessi hafi starfsmenn farið fram með furðulegar rangfærslur um starfsmannaveltu.
„Stjórnarmaður í Eflingu sem lengi hefur verið uppsigað við félagið, Guðmundur Baldursson, fékk veður af tilvist þessa texta og fékk uppfrá því mikinn áhuga á að fá hann afhentan frá mér. Ég taldi mig ekki hafa neina heimild til þess og meirihluta stjórnarmanna tóku undir þá afstöðu með mér. Frekar en að virða trúnað við félagið sem hann er stjórnarmaður í, upphóf Guðmundur í kjölfarið mikla klögumála-herferð á vettvangi Starfsgreinasambandsins og ASÍ til að fá umræddan texta afhentan, en varð þar afturreka,“skrifar hún.
Ásakanir um ógnarstjórn
Fremur en að sætta sig við lög og leikreglur síns eigin félags og verkalýðshreyfingarinnar, hafi Guðmundur ákveðið að fara með starfsmannamál skrifstofu Eflingar í fjölmiðla og er það ástæða þess að fréttamaður hafði samband við hana á fimmtudag vegna málsins.
„Eftir að hafa fengið póst frá fréttamanni ákvað ég að ávarpa starfsfólk Eflingar í upphafi vinnudags á föstudaginn síðasta, en búið var að ákveða starfsmannafund á þeim tíma. Ég sagði við starfsfólk á þessum fundi að það væru tveir kostir í stöðunni. Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu,“ segir Sólveig Anna.
Samþykki fyrir áframhaldandi neikvæðri umfjöllun
Hún segist á fundinum hafa lýst því fyrir starfsfólki að fjölmiðlar hafi áður gert sér mikinn mát úr frásögnum fyrrverandi starfsfólks Eflingar um meinta glæpi hennar gegn þeim, og að mikill tími og orka hafi farið í það af hennar hálfu til að verjast þessum ásökunum sem hún segir vera tilhæfulausar.
„Andstæðingar félagsins og þeirrar stefnu sem ég og stjórn félagsins hafa markað í baráttu verka- og láglaunafólks eru því miður margir. Með ákvörðun starsfólks Eflingar sl. föstudag um að standa staðfastlega við ýktar og ósanngjarnar lýsingar trúnaðarmanna á vinnustaðnum sem ég ber ábyrgð á hefur starfsfólk í reynd gefið samþykki sitt fyrir áframhaldandi neikvæðri umfjöllun og umræðu sem gerir mér illmögulegt að leiða baráttu félagsfólks.
Kýs að hlíta vantraustsyfirlýsingunni
Ég kýs að útsetja mig ekki fyrir slíka útreið enn á ný, með tilheyrandi skaða fyrir baráttu Eflingar og Eflingarfélaga. Fremur kýs ég að hlíta þeirri afdráttarlausu vantraustsyfirlýsingu sem starfsfólk Eflingar hefur sent mér, félaginu og fjölmiðlum, sem gera starf mitt ómögulegt. Ég get ekki gegnt stöðu formanns í félaginu að svo komnu máli og hef ég tilkynnt stjórn Eflingar um afsögn mína,“ segir hún og heldur áfram.
„Mér þykir það ótrúlegt að það sé starfsfólk Eflingar sem í reynd hrekur mig úr starfi, með því að leyfa andstæðingum félagsins að hossa sér á ýkjum, lygum og rangfærslum um mig og samverkafólk mitt. Starfsfólk Eflingar hefur kosið að svipta mig því vopni sem hefur gert mér mögulegt að leiða sögulega og árangursríka baráttu verka- og láglaunafólks síðustu ár, mannorði mínu og trúverðugleika.“
Færslu Sólveigar Önnu má lesa hér í heild sinni.