Í viðtali við Finans sagði hann að það sé af nægu að taka. „SAS berst fyrir lífi sínu. Þegar ég horfi á hvernig markaðurinn er núna, hvernig viðskiptavinir okkar breytast og hversu mikið við skuldum þá er augljóst að við þurfum að gera hlutina allt öðruvísi. Það er barátta að breyta SAS svo við eigum framtíð,“ sagði hann.
Hann dró því enga dul á að staða SAS er alvarleg og framtíð fyrirtækisins í hættu.
Hann sagði að meðal þess sem valdi fyrirtækinu vanda sé mikið tap vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og að í framtíðinni sé reiknað með að færri ferðist í viðskiptaerindum í framtíðinni. Það kemur illa við SAS þar sem fleiri ferðast, hlutfallslega, í viðskiptaerindum með félaginu en hjá keppinautunum.
Að auki hefur SAS neyðst til að taka á sig skuldir upp á 27 milljarða sænskra króna og munu þær hafa áhrif næstu árin. Þess utan eru kjarasamningar SAS dýrari en kjarasamningar samkeppnisaðilanna. Van der Werff hefur því boðið stéttarfélögum til samningaviðræðna um meiri sveigjanleika og hagræðingu í rekstri.