Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Sigurði Erni Hilmarssyni, formanni Lögmannafélagsins, að honum sýnist vera þokkalegur gangur hjá Landsrétti hvað varðar afgreiðslu þessara mála en því fylgi að vonum aukið álag á lögmenn. „Við höfum séð það að undanförnu að boðunarfrestur aðalmeðferða er orðinn mjög skammur. Það veldur vandkvæðum hjá okkur því við ráðum ekki tímasetningum á dagsetningum aðalmeðferða heldur verðum við að skipuleggja okkur í kringum þær,“ sagði hann.
Fréttablaðið hefur eftir lögmönnum að þeir fái um þriggja vikna fyrirvara fyrir aðalmeðferð máls og dæmi séu um lögmenn sem flytji fimm eða fleiri mál í réttinum á einum mánuði.
Mál byrjuðu að safnast upp hjá Landsrétti skömmu eftir að hann var settur á laggirnar en þá vantaði dómara eftir að þrír af dómurunum fimmtán fóru í leyfi vegna Landsréttarmálsins. Þá hafa aðgerðir vegna heimsfaraldursins einnig tafið málsmeðferð.
Hervör Lilja Þorvaldsdóttir, forseti Landsréttar, tók undir með Sigurði um álagið en sagði réttinn halda í við þau mál sem koma inn á borð til hans.