Rohden setti tíu slíkar auglýsingar upp nærri sendiráðinu á sunnudaginn en á mánudaginn voru þær horfnar.
Rohden er sannfærður um að starfsmenn sendiráðsins hafi tekið auglýsingaskiltin niður og kærði því sendiráðið til lögreglunnar. Sveitastjórnarkosningar fara fram í Danmörku í næsta mánuði og um leið verður kosið í svæðisstjórnirnar 5 og er Rohden í framboði til þeirrar einingar sem fer með málefni höfuðborgarsvæðisins. Í Danmörku er löng hefð fyrir því að frambjóðendur hengja upp auglýsingar, með myndum af sjálfum sér, á ljósastaura og skilti í bæjum og borgum í þeirri von að ná til kjósenda.
Hann mætti fyrir framan kínverska sendiráðið í gær og setti nýjar kosningaauglýsingar upp. „Það er ekki kínverska sendiráðið sem ákveður hvaða kosningaauglýsingar hanga uppi í Danmörku,“ sagði hann í samtali við Ekstra Bladet þegar hann var að hengja nýjar auglýsingar upp. Hann er formaður Dansk Kina-kritisk selskab sem eru samtök sem eru gagnrýnin á Kínverja og framferði kommúnistastjórnarinnar.
Margir stjórnmálamenn hafa tjáð sig um málið og hafa sumir sagt að þetta sé óþolandi íhlutun Kínverja í dönsk stjórnmál og þar með innanríkismál.
Eftir að fjölmiðilinn Den Uafhængige sýndi upptökur í gær frá því þegar vaktmaður á vegum kínverska sendiráðsins fjarlægði kosningaauglýsingar fyrir framan sendiráðið krafðist Michael Aastrup Jensen, talsmaður Venstre í utanríkismálum, þess að Jeppe Kofod, utanríkisráðherra, kalli kínverska sendiherrann á teppið og fræði hann um gang lýðræðisins í Danmörku.
Kofod hefur ekki enn gert það en í gær sagði hann að málið væri „mjög slæmt“. Hann sagði Ekstra Bladet að hann vilji bíða niðurstöðu lögreglurannsóknar áður en hann stígur næstu skref í málinu.
Talsmenn sendiráðsins svöruðu ekki spurningum Ekstra Bladet um málið en sendu tölvupóst þar sem þeir fordæmdu að skilti, með fána Tíbet, væru hengd upp. „Við erum mjög hneyksluð á þessari meðvituðu ögrun. Við höfum aldrei afskipti af kosningum í öðrum löndum en um leið erum við algjörlega á móti öllum tilraunum til afskipta af innri málefnum Kína og tilraunum til að grafa undan fullveldi landsins undir yfirskini kosningabaráttu eða hins svokallaða tjáningarfrelsis,“ segir í tölvupóstinum.