Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Segir blaðið að heimildir innan ferðaþjónustunnar hermi að bankarnir muni áfram sýna biðlund því ferðamannasumarið 2021 hafi ekki staðið undir væntingum hvað varðar fjölda ferðamanna.
Um 600.000 erlendir ferðamenn komu til landsins en vonast hafði verið eftir að þeir yrðu 850.000. Blaðið segir að heimildir hermi að á móti þessu vegi að hver ferðamaður hafi eytt meira hér á landi en áður hefur tíðkast.
Innan bankakerfisins er að sögn fullyrt að að minnsta kosti helmingur þeirra fyrirtækja, sem hefur verið með lán sín í frystingu, muni þurfa þess áfram fram á næsta ár. Veturinn mun verða þessum fyrirtækjum mjög erfiður þar sem tekjur sumarsins hafi ekki dugað til að mæta kostnaði.
Þá blasir mikill vandi við sumum þessara fyrirtækja um áramótin þegar sex mánaða úrræði Vinnumálastofnunar lýkur en þá þurfa þau sjálf að standa full skil á launagreiðslum.