Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, segir staðhæfingar Aðalheiðar Ámundadóttur í leiðara Fréttablaðsins í morgun að hann hafi komið til dyra þegar blaðamenn Fréttablaðsins knúðu þar dyra í gærmorgun, vera rangar.
Í leiðara Fréttablaðsins í morgun lýsti Aðalheiður því að blaðamönnum Fréttablaðsins hafi verið meinaður aðgangur að lögreglustöðinni í Borgarnesi þar sem afhending kjörgagna fór fram.
Skrifaði Aðalheiður:
Tvíeyki blaðsins mætti á lögreglustöðina upp úr klukkan níu og hringdi dyrabjöllu. Formaður yfirkjörstjórnar og einn sakborninga í málinu kom sjálfur til dyra en snéri frá þegar hann sá gestina. Enginn svaraði þegar blaðamaður hringdi öðru sinni en þegar hringt var í þriðja sinn opnaði starfsmaður á stöðinni án þess þó að hleypa Fréttablaðinu inn. Taldi sig ekki mega það. Blaðamaðurinn spurði hvar starfslið RÚV væri, og benti á bíl þess á planinu. Útkastarinn viðurkenndi þá með semingi að RÚV væri þegar komið í hús. Gekk þá tvíeykið inn í húsið án þess að afla frekara samþykkis.
Í samtali við DV segir Ingi þetta alrangt hjá fréttastjóranum. „Það er hrein og klár lygi hjá Aðalheiði Ámundadóttur að ég hafi komið til dyra á lögreglustöðinni í Borgarnesi þegar fyrrgreindir aðilar hafi knúið þar dyra.“
Ingi segist jafnframt ekki stjórna því, „hvorki í gær né aðra daga,“ hverjir fara inn á lögreglustöðina í Borgarnesi. Hann segist þá ekki hafa verið staddur nálægt útihurðinni nema þegar hann sjálfur gekk þar inn og út.
„Ég var staddur á lögreglustöðinni samkvæmt beiðni starfsmanns Alþingis þegar innsigli á fangaklefa var rofið og tekin þar út þau gögn sem átti að skoða. Þegar gögnin voru komin í sal þar sem verkið sem vinna átti yfirgaf ég lögreglustöðina enda var umrætt verk ekki á hendi yfirkjörstjórnar og ég hafði ekkert um það að segja.“
„Þannig er það ómenguð lygi hjá Aðalheiði að ég hafi komið til dyra á lögreglustöðinni enda er það mér algjörlega óviðkomandi hver fær að fara þar inn,“ bætti Ingi við.
Aðspurður hvort ekki skjóti skökku við að þeir fjölmiðlar sem fá að fylgjast með framkvæmd talningar og afstemmingu atkvæða í lýðræðislegum kosningum séu handvaldir inn bendir Ingi á að „verkefnið“ hafi ekki verið í sínum höndum. „Þetta sem gerðist í gær, þetta kom mér ekkert við. Ég hafði ekki hugmynd um hverjir voru inni og úti þarna í gær. Ég hafði ekkert um þetta að segja. Þetta var bara ekki í mínum höndum. Ég mætti bara þarna í smá stund.“
Ingi segir að verkefnið hafi verið á könnu Undirbúningsnefndar Alþingis fyrir rannsókn kjörbréfa, en ekki yfirkjörstjórnar. „Þetta kom yfirkjörstjórn ekkert við.“
Í samtali við DV segir Ingunn Lára Kristjánsdóttir, blaðamaður Fréttablaðsins, sem var á staðnum í gær að umræddur Ingi sé einn umtalaðasti maður landsins og að hún viti hvernig hann lítur út. „Hann stóð hinum megin við dyrnar hjá tröppunum, leit á okkur og hvarf svo. Um það þarf ekki að hafa fleiri orð,“ segir Ingunn.