Þetta kemur fram í leiðara Fréttablaðsins í morgun sem Aðalheiður Ámundadóttir fréttastjóri skrifar. Segir hún störf blaðsins á vettvangi í gær hafa verið tvíþætt. Annars vegar að flytja lesendum fréttir af vettvangi, en einnig að „brjóta sér leið um fréttavettvanginn sem var kyrfilega varinn starfsliði hins opinbera […]“
Þá segir Aðalheiður að þegar blaðamönnum Fréttablaðsins var meinaður aðgangur að vettvangi talningarinnar hafi starfsmenn RUV þegar verið komnir á staðinn.
Tvíeyki blaðsins mætti á lögreglustöðina upp úr klukkan níu og hringdi dyrabjöllu. Formaður yfirkjörstjórnar og einn sakborninga í málinu kom sjálfur til dyra en snéri frá þegar hann sá gestina. Enginn svaraði þegar blaðamaður hringdi öðru sinni en þegar hringt var í þriðja sinn opnaði starfsmaður á stöðinni án þess þó að hleypa Fréttablaðinu inn. Taldi sig ekki mega það. Blaðamaðurinn spurði hvar starfslið RÚV væri, og benti á bíl þess á planinu. Útkastarinn viðurkenndi þá með semingi að RÚV væri þegar komið í hús. Gekk þá tvíeykið inn í húsið án þess að afla frekara samþykkis.
Þess má hér geta að í leiðbeiningum Feneyjarnefndar Evrópuráðsins um góða starfshætti er kemur að kosningum er aðgengi fjölmiðla að störfum kjörstjórna gert að sérstöku umfjöllunarefni. „[Kosningalög] verða að tiltaka með skýrum hætti hvaða staði eftirlitsfólk má ekki heimsækja svo þeirra störf séu ekki takmörkuð um of,“ segir þar meðal annars. Þar eru jafnframt talin upp nokkur atriði sem þurfa að vera til staðar, eigi kosning að heita „frjáls.“ „Talning atkvæða þarf að vera gagnsæ. Eftirlitsmenn, fulltrúar frambjóðenda og fjölmiðlar verða að fá að vera viðstaddir,“ er eitt þeirra atriða.
„Skömmu síðar,“ skrifar Aðalheiður áfram, „var viðstöddum tilkynnt að talning væri að hefjast og að rýma þyrfti salinn. Fréttablaðið neitaði að víkja af vettvangi meðan stjórnmálamenn stemmdu af störf yfirkjörstjórnar. Við það sat.“
Svo virðist sem kjörstjórn Norðvesturkjördæmis hafi verið mikið í mun að brjóta leiðbeiningar Feneyjarnefndarinnar. Aðalheiður lýsir næstu skrefum:
Þegar afstemmingu var lokið hélt liðið yfir á Hótel Borgarnes til að skoða talningarstaðinn, innganga í hann, sjónsvið öryggismyndavéla og annað sem máli skiptir fyrir rannsókn þingnefndarinnar. Ekki var leyndarhyggjan minni á Hótel Borgarnesi en á lögreglustöð bæjarins.
Tveir öryggisverðir voru nú komnir til að halda aftur af Fréttablaðinu sem vildi mynda vettvang hinnar umdeildu talningar og flytja fréttir af störfum þingnefndarinnar. Enginn lét þess þó getið hvað í vistarverum hótels Borgarness þyldi ekki að koma fyrir almenningssjónir.
Bendir fréttastjórinn þá á að leyndarhyggja finnist ekki bara í efstu lögum stjórnsýslunnar.
Hún grasserar ekki síst hjá starfsfólkinu á gólfinu sem veit ekki hvernig það á að bregðast við þegar blaðamann ber að garði. Auðveldasta leiðin er oftast valin til öryggis, að henda blaðamanninum út. Það er full ástæða til að grípa til formlegra aðgerða gegn þessum stælum enda eru þeir svo algengir að blaðamenn búa sig undir að standa í ströggli við varðmenn hins opinbera í hvert einasta skipti sem þeir mæta á fréttavettvang. Kælingaráhrifin af því eru ískyggileg, því flestir lúffa.